148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

aðgengi að íslenskum netorðabókum.

[11:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Margir hafa orðið til að benda á að í hinu þunga iðukasti samtíma okkar sé íslenskri tungu ákveðinn háski búinn. Þess er skemmst að minnast að við mennta- og menningarmálaráðherra sátum fund ásamt fleiri frambjóðendum á vegum Rithöfundasambandsins og Félags íslenskra bókaútgefenda í aðdraganda nýliðinna alþingiskosninga undir þeim formerkjum að grípa þyrfti til aðgerða, ekki bara til að vernda og efla íslenska tungu heldur til að bjarga henni.

Þar þarf auðvitað margt til að koma. Eitt er að íslenskur almenningur er mjög augljóslega hlynntur vernd og viðgangi tungu sinnar en af hálfu opinberra aðila þarf að grípa til margvíslegra ráðstafana, ekki síst sem tengjast netheimum sem stundum eru kallaðir svo. Eitt af því sem maður saknar á netinu og verður að telja algerlega nauðsynlegt að fólk hafi greiðan aðgang að er íslensk orðabók, og þá í leiðinni fleiri orðabækur, íslensk-ensk, íslensk-dönsk o.s.frv., þannig að þýðingar séu greiðar.

Sömuleiðis vil ég nefna orðsifjabók. Ég vil nefna hin fjölmörgu íðorðasöfn sem fyrir liggja og hafa verið samin af miklum hagleik og vandvirkni í fjölmörgum greinum, efni um sögu og þróun íslensks máls.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er því þessi: Hvaða áform og aðgerðir eru uppi af hálfu hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og ráðuneytis hennar í þessum efnum?