148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[13:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa spurningu frá hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur. Varðandi þjálfun starfsfólks eða heilbrigðisnema yfirleitt er kannski ekki rétt að segja að hún sé tilviljunarkennd. En hún er lítil, samt einhver. Það er kannski sérstaklega í kennslu um siðfræðileg málefni þar sem þessi umræða kemur upp og einnig að einhverju leyti í tengslum við handlæknisfræði.

Auðvitað er síðan einnig í fleiri heilbrigðisvísindagreinum, a.m.k. í læknisfræði, komið inn á þessi mál þó að það sé kannski ekki með skipulegum hætti, einfaldlega vegna þess að þar er verið að ræða um með hvaða hætti líkaminn hafnar bæði blóðgjöfum og öðrum líffærum sem rætt er um í tengslum við líffæragjöf. Það er ekki þannig að heilbrigðisstarfsfólk almennt þekki ekki umræðuna en ég held að það væri jákvætt að taka hana meira og lengra í siðfræðilegu tilliti, það gæti skipt mjög miklu máli.

Ég held að það sé líka rétt, sem hv. þingmaður kom inn á, að nálgun eins og þessi, eða kannski einhver sú nálgun sem auðveldaði það að framboð á líffærum ykist, er alveg áreiðanlega til góða og gæti skipt mjög miklu máli. Við skulum athuga að það er ekki bara í innlendu samhengi sem þetta skiptir máli. Þetta skiptir líka máli í því að langflest líffæri sem Íslendingar þiggja í líffæragjöfum koma ekki frá innlendum gjöfum heldur erlendum. Það má svo sem segja að á endanum sé það kannski ekki eðlilegt að við séum bara þiggjendur í þessu efni þó að (Forseti hringir.) kannski sé ekki beint hægt að segja að við getum aukið framboðið.