148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

Evrópuráðsþingið 2017.

86. mál
[14:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka þessa kórréttu kynningu enda er ég fráfarandi formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingins og þakka núverandi formanni fyrir sína framsögu.

Eins og komið hefur verið inn á var líf og fjör á fundum Evrópuráðsþingsins liðinn vetur og virðist ekkert lát ætla að verða þar á. Þar kennir ýmissa grasa, eins og sagt er. Tyrkland og Rússland eru kannski stærstu þemun þessa dagana hvað það varðar hvernig landsdeildir standa sig í að standa vörð um þessi helstu gildi Evrópuráðsþingsins sem eru mannréttindi, lýðræði og réttarríki.

Það hefur gengið á mjög svo ýmsu hvað þessi tvö lönd varðar og þeirra áframhaldandi samstarf við Evrópuráðsþingið vegna víðtækra mannréttindabrota og skerðinga í þeim löndum og innrásarstríðs í þokkabót.

Aðeins hefur verið tæpt á því hvað Íslandsdeildir hafa verið að gera en ég ætla að fara yfir hverjir voru í Íslandsdeildinni í fyrra, með mér sem formanni þá. Katrín Jakobsdóttir og Vilhjálmur Árnason voru aðalmenn og varamenn þeirra Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Birgir Ármannsson, og Ásta Guðrún Helgadóttir sat sem varamaður fyrir mig.

Eins og kannski öllum landsmönnum er kunnugt hafa verið tíðar kosningar hér þannig að ný Íslandsdeild var kosin 14. desember 2017 og nú eru aðalmennirnir Rósa Björk Brynjólfsdóttir formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, ég, varaformaður og Bergþór Ólason frá Miðflokknum. Varamennirnir eru Ólafur Þór Gunnarsson frá Vinstri grænum, Halldóra Mogensen frá Pírötum og Birgir Þórarinsson frá Miðflokknum.

Eins og áður hefur komið fram voru þingfundir Evrópuráðsþingsins sem Íslandsdeildin sótti einungis tveir og var það vegna kosninga, þ.e. ekki var búið að stilla upp Íslandsdeildinni fyrir fyrsta þingið í janúar í fyrra og nú síðast kom kosningabarátta í veg fyrir að við sæjum okkur fært að fara. Fyrsti þingfundurinn sem Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins sótti var fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24.–28. apríl 2017 og af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn ég sjálf, Vilhjálmur Árnason og Katrín Jakobsdóttir, auk Jörundar Kristjánssonar, starfandi ritara.

Helstu mál á dagskrá voru umræður um virkni lýðræðisstofnana í Tyrklandi, staða mannréttinda í Norður-Kákasus, umræður um vaxandi misskiptingu, aðgerðir til að vernda flóttakonur fyrir kynbundnu ofbeldi, 25 ára starf Evrópunefndar um forvarnir gegn pyndingum, misnotkun á kerfum Interpol, vernd trúarlega minnihlutahópa og leiðir til þess að bæta fjármögnun aðstoðar við flóttamenn í neyð og samhengi gervigreindar og mannréttinda.

Þingið gerði alvarlegar athugasemdir við stöðu mála í Tyrklandi og virkni lýðræðislegra stofnana. Í kjölfar valdaránstilraunar sumarið 2016 voru sett neyðarlög í Tyrklandi sem framlengd hafa verið, lög sem veita stjórnvöldum ríkar heimildir á grundvelli neyðarástands. Í ályktun þingsins var lýst miklum áhyggjum af þróun mála, m.a. því að kjörnir fulltrúar á tyrkneska þinginu hefðu verið hnepptir í varðhald. Tyrkland virðist stefna á að endurupptaka dauðarefsinguna. Tyrkjum hefur því verið bent á að það sé ekki samrýmanlegt aðild að Evrópuráðsþinginu.

Í ályktuninni voru tyrknesk yfirvöld hvött til þess að aflýsa neyðarástandi hið fyrsta og Tyrkir voru hvattir til þess að fylgja ráðum Feneyjanefndarinnar um breytingar á stjórnarskrá.

Í ræðu sinni um vaxandi misskiptingu rakti Katrín Jakobsdóttir áhrif frjálshyggju á efnahagslega misskiptingu og lagði áherslu á nýja nálgun í hagfræði og styrkingu velferðarkerfisins. Þingið samþykkti ályktun þar sem m.a. var hvatt til aðgerða til að berjast gegn launamun kynjanna.

Í sérstökum umræðum um vaxandi útlendingaandúð, einkum gegn gyðingum og múslimum, var Katrín Jakobsdóttir framsögumaður flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstri manna og rakti hún m.a. orsakir aukinnar útlendingaandúðar til efnahagskreppunnar og hvernig lýðhyggja hefði fengið byr undir báða vængi með vaxandi misskiptingu.

Ég flutti einnig ræðu undir þessum dagskrárlið og vakti athygli á því að það væri ekki einungis efnahagskreppan heldur einnig, og ekki síður, opinber orðræða og hugtakanotkun sem væri olía á eld útlendingaandúðar og vísaði þar með til þess að sífellt og alltaf væri verið að tala um flóttamannavandamálið, eins og þetta væri einhver óþekkt stærð sem væri vandamál í okkar lífi en ekki manneskjur í leit að friði og öryggi á ströndum Evrópu.

Í umræðum um skýrslu Evrópunefndar um forvarnir gegn pyndingum kvaddi ég mér enn og aftur hljóðs og fagnaði sérstaklega tillögum um aukið samráðsferlið nefndar laga- og mannréttindanefndar, nefndarinnar sjálfrar, CPT-nefndarinnar svokölluðu, og laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsins. Ég benti líka á að ríki eins og Ísland sem hefur almennt góða ímynd fylgir ekki til fulls tilmælum nefndarinnar, sérstaklega ekki þegar kemur að nauðungarvistun og framkomu við fólk með geðraskanir og geðfatlanir sem vistað er á íslenskum stofnunum.

Í umræðum um misnotkun kerfa Interpol var Vilhjálmur Árnason framsögumaður flokkahóps íhaldsmanna. Hann sagði löggæslu mikilvægan hornstein samfélagsins og traust milli löggæslustofnana og borgara vera lykilatriði. Því væri afar mikilvægt að einstök aðildarríki misnotuðu ekki Interpol-kerfin til handtöku og framsalsbeiðna og að fyrir utan órétt gegn borgurunum kæmi það niður á trausti til stofnunarinnar.

Fyrir utan hefðbundna dagskrá þingsins var staða forseta þess í brennidepli eins og áður hefur verið vikið að í þessum sal en Pedro Agramunt, forseti Evrópuráðsþingsins, hafði legið undir ámæli fyrir ferð til Sýrlands. Hann gaf kost á þinglegum yfirheyrslum um ferðina og lýstu flokkahópar því yfir í kjölfarið að hann nyti ekki trausts til áframhaldandi starfa. Þetta voru hinar merkilegustu yfirheyrslur þar sem Agramunt ræddi m.a. um horfið peningaumslag af skrifstofu sinni og virtist orðinn pínulítið vænisjúkur í starfi.

Samkvæmt þingsköpum Evrópuráðsþingsins var ekki hægt að bera formlega vantrauststillögu undir atkvæði. Framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins ályktaði á síðasta degi þings að Agramunt væri bannað að fara í opinberar heimsóknir í nafni Evrópuráðsþingins eða senda frá sér yfirlýsingar í nafni þess. Agramunt sat þó sem fastast sem forseti þar sem ekki var hægt að steypa honum af stóli, ef svo mætti að orði komast, og sat áfram sem formaður landsdeildar sinnar og var lengi vel áfram formaður flokkahóps síns í Evrópuráðsþinginu þannig að þetta mál var allt hið vandræðalegasta fyrir Evrópuráðsþingið.

Þetta fyrsta þing Íslandsdeildarinnar í þetta sinnið getur kallast heldur betur ævintýralegt og margir sem höfðu jafnvel unnið þarna í áratugi sögðu okkur að þingið væri aldrei svona fjörugt. Það var mjög áhugavert að fylgjast með vantraustsyfirlýsingum þingmanna þarna í þingsal sem treystu ekki forseta sínum lengur, að meginefni til vegna þess að hann fór með rússneskri herþotu í heimsókn til forseta Sýrlands. Ekki nóg með það, hann var einnig ansi duglega bendlaður við spillingarmál í Aserbaídsjan sem ég vík betur að á eftir. Nokkrir þingmenn, m.a. þeir tveir þingmenn sem fóru með forsetanum til Sýrlands, voru einnig bendlaðir við spillingarmálin.

Þannig lauk þessu fyrsta vorþingi Íslandsdeildarinnar í fyrra. Annar fundur Íslandsdeildarinnar var haldinn í Strassborg 26.–30. júní 2017. Af hálfu Íslandsdeildar sátu fundinn ég sjálf, Vilhjálmur Árnason og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, auk Bylgju Árnadóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru mannréttindi flóttafólks, viðbrögð Evrópulanda við flóttamannastraumnum og breytingar á þingsköpum Evrópuráðsþingsins. Þá var hryðjuverkaógnin í Evrópu, ofbeldi gegn konum á almannasvæðum og staða lýðræðis- og mannréttindamála í Hvíta-Rússlandi einnig til umræðu.

Stærsta mál sumarþingsins var þó tillaga um breytingar á þingsköpum Evrópuráðsþingsins þannig að hægt væri að lýsa vantrausti á forseta þingsins, varaforseta þess og formenn nefnda og setja þá af. Skýrsla málsins og tillagan bar heitið Styrking ábyrgðar í þinginu og átti uppruna sinn í deilum um forseta þingsins, Pedro Agramunt. Á fundi sendinefnda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna var ákveðið að ég myndi skrifa bréf til þingsins til þess að skýra afstöðu landanna til lögfræðilegra álitamála og lýsa stuðningi við fyrirhugaðar breytingar á þingsköpum. Allar landsdeildir Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna skrifuðu undir bréfið og Íslandsdeildin sá um að dreifa því til þingmanna.

Herra forseti. Ég sé að ég hef miklu styttri tíma en ég átti von á til að fara yfir þau miklu störf sem við höfum hér þannig að ég læt nú staðar numið. Ég er búin að lýsa þessum tveimur þingfundum sem við fórum á, þeir voru einstaklega áhugaverðir, en vil árétta að lokum að framkoma Íslands gagnvart Evrópuráðsþinginu er ekki ásættanleg. Við fáum ekki að fara í jafn margar nefndarferðir og við ættum að fá að fara skuldbindingum okkur samkvæmt. Ef við erum þjóð meðal þjóða í Evrópu finnst mér að við ættum að standa (Forseti hringir.) við þessar alþjóðlegu skuldbindingar okkar og fjármagna ferðir þingmanna á þetta merkilega þing.