148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég á svo erfitt með að átta mig á því hvers vegna það er svona ofboðslega mikil andstaða við þetta þegar við skoðum lyf sem hjálpar fólki. Hv. þingmaður talar um að skortur sé á rannsóknum sem sýna fram á gagn lyfjahamps til lækninga en niðurstöður rannsókna sýna fram á að kannabis hefur hjálpað fólki með mikla verki ótrúlega mikið. Þannig að ég skil ekki alveg hvaða rannsóknir hv. þingmaður hefur verið að skoða.

En er það okkar þingmanna að ræða það, að skoða rannsóknir og taka ákvarðanir um hvort lyfjahampur sé yfir höfuð eitthvað sem að fólk eigi að fá eða ekki? Er það ekki bara þeirra sem eru veikir að ákveða hvort þeir vilji hafa aðgang að þessu lyfi eða ekki og lækna að ákveða hvort þeir eigi skrifa upp á þetta fyrir fólk eða ekki?

Það er fullt af hættulegum lyfjum sem við notum sem læknar skrifa upp á og láta fólk fá, sem fara á svarta markaðinn og fólk misnotar á ýmsan hátt. En við hljótum að geta fundið lausnina við því.

Varðandi það hvort kannabis sé stórhættulegt þá er alveg rétt að hættur fylgja þessu lyfi, en hætturnar eru fyrir hendi þegar efnið er ólöglegt og ekki er haft neitt eftirlit með því hvaða efni fólk hefur aðgang að. Það er eitt af því sem við getum tekið á ef til er lagarammi í kringum það. Við getum passað upp á að ekki sé hátt THC-magn í kannabisplöntunni, að fólk með undirliggjandi geðsjúkdóma verði ekki veikt af því að reykja það, fyrir utan það að þegar veikt fólk notar þetta þá notar það kannabisolíu, það reykir ekki kannabis. Það er mismunandi hvernig fólk notar lyfið en heilbrigðisráðherra myndi fá allar upplýsingar í hendurnar til þess að finna út úr hvernig best væri að útfæra þá löggjöf fyrir Ísland og íslenskar aðstæður og koma í veg fyrir að lyfið yrði misnotað.