148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[16:07]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Það segir sig sjálft að þegar eftirlit með lyfjum er hert þá er það ekki jafn hættulegt. Það hefur bara sýnt sig þeim í löndum sem bjóða upp á þá þjónustu að fólk geti komið með alls konar vímuefni til þeirra og látið skoða innihaldið til að fólk viti hvað það setur ofan í sig. Fólk sem kaupir kannabis á svörtum markaði hér á landi hefur ekki hugmynd um hvað það fær í hendurnar.

En burt séð frá því, því að við erum að tala um lyf sem hjálpar fólki, langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna erum við ekki tilbúin til þess að fara í sömu átt og lönd eins og Ástralía, Belgía, Kanada, Grikkland, Tékkland, Síle, Úrúgvæ, Kólumbía, Finnland, Þýskaland, Ísrael, Ítalía, Holland og Spánn? Hvers vegna getum við ekki hugsað um þetta lyf á sama hátt og gert er annars staðar í heiminum? Fólk notar lyf eins og ópíóíða, sem eru stórhættuleg lyf og fólk verður háð þeim. Það á mjög erfitt með að hætta og trappa sig niður þegar það er búið að taka ópíóíða í langan tíma. Svo fara þessi lyf á svarta markaðinn og hafa gífurlega skaðleg áhrif á fólkið sem verður háð þeim. Er ekki rökrétt þegar komið er lyf eins og kannabis, sem fólk gæti mögulega haft aðgang í staðinn fyrir þetta lyf, að við getum minnkað skaðsemi þess að taka þessi lyf við verkjum?

Fólk, sem þjáist af krabbameini og er í mjög erfiðri lyfjameðferð, hefur enga matarlyst, tekur kannabisolíu og það eykur matarlyst þess og lífsgæði. Það er staðreynd. Fólk notar það við taugaverkjum og það hjálpar því alveg gríðarlega mikið. Fólk notar kannabis annars staðar í heiminum með ótrúlega góðum árangri. En við ætlum að banna fólki það. Hvers vegna? Af því að það er svo stórhættulegt og við erum hrædd um að ungmenni fari að reykja það. Við hljótum að geta haft eftirlit með því og fundið lausnina á þeim vanda. Þetta efni er þegar á svarta markaðnum þannig að það er ekki eins og við munum auka það, það er ekki eins og bannstefnan virki.