148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[16:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talar í aðra röndina um að það verði minna hættulegt og auðveldara að fylgjast með neyslu lyfsins ef það er löglegt en ef það er ólöglegt, en í hina röndina talar hún að leyfa eigi fólki að rækta plöntur heima hjá sér. Það geti verið ein leið. Það er náttúrlega bara absúrd. Hvernig í ósköpunum ætlum við að staðla þá meðferð? Hvernig í ósköpunum ætlum við að fylgjast með því hver notar afurðirnar af slíkum plöntum? Hvernig ætlum við að gera það? Ætlum við að vera með eitthvert eftirlit inni á heimilum fólks með því hvað það ræktar frá degi til dags? (Gripið fram í.) Það er ekki málið. Það er engin leið til þess að staðla þá ræktun.

Þingmaðurinn spyr hvort ekki sé rökrétt að við leyfum þessa leið vegna þess að einhver tiltekinn hópur landa hafi leyft þá leið að einhverju leyti. Það er aldeilis ekki. Það er heilmargt í lyfjalöggjöf annarra landa og heilmargt í því hvernig önnur lönd reka lyfjamarkað sinn sem við mundum aldrei gera á Íslandi. Eða munum vonandi aldrei gera á Íslandi. Sum lönd leyfa lyfjaauglýsingar mjög frjálslega. Sum lönd leyfa að sýklalyf séu seld í lausasölu o.s.frv. Við ætlum ekki að fara þangað.

Að halda því fram að það sé rökrétt af því að einhverjir aðrir hafi leyft það — við skulum bara átta okkur á því, hv. þingmenn, að sum þeirra landa þar sem kannabis hefur verið lögleitt eða leyft í einhverjum tilgangi eru með margfalt stærri vandamál tengd notkun og ofnotkun þessara lyfja en við erum með. Við viljum væntanlega ekki fara þangað.