148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

35. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, breytingum sem myndu fella á brott skilyrði um EES-ríkisborgararétt þegar kemur að störfum á vegum ríkisins. Að frumvarpinu stendur þingflokkur Viðreisnar, en málið var áður flutt af Pawel Bartoszek, þáverandi þingmanni.

Það er nokkuð af sama meiði, skulum við segja, eða sömu ættar og frumvarp sem var mælt fyrir hér á undan, en þetta varðar réttindi útlendinga á Íslandi.

Frumvarpið er afar stutt og hljóðar 1. gr. þess svo, með leyfi forseta:

„4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.“

Ég held að rétt sé að víkja aðeins að núgildandi 6. gr. sem þessi töluliður er hluti af. Þar er fjallað um almenn skilyrði þess að fá skipun eða ráðningu í starf á vegum ríkisins. Í fyrsta lagi er það 18 ára aldur, þó með einhverjum undantekningum um ræstingar, sendilsstörf og þess háttar, í öðru lagi er það lögræði og í þriðja lagi nauðsynlegt heilbrigði.

Kemur þá að fjórða skilyrðinu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Íslenskur ríkisborgararéttur. Þó má ráða ríkisborgara frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum til starfa með sömu kjörum og íslenska ríkisborgara. Einnig má víkja frá þessu ákvæði þegar um er að ræða aðra erlenda ríkisborgara ef sérstaklega stendur á.“

Í 5. lið er síðan fjallað um almenna menntun og þá sérmenntun sem viðkomandi starf krefst.

Í 6. lið er fjallað um fjárforræði þegar um er að ræða starf sem fjárreiður fylgja.

Frumvarpið gengur sem sagt út á það að krafan um ríkisborgararéttinn falli brott en að kröfurnar um aldur, lögræði, heilbrigði, menntun og fjárforræði verði óbreyttar.

Þess er að geta að á sínum tíma þegar hið sérstaka ákvæði um EES-borgarana kemur inn samkvæmt skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum var það útvíkkun á ákvæðinu. Það er líka rétt að taka fram að með frumvarpinu er ekki verið að breyta fyrirkomulaginu þegar kemur að embættismönnum, t.d. dómurum, lögreglumönnum, saksóknurum, ráðuneytisstjórum eða þeim sem fara með opinbert vald. Flest ríki setja slíkar reglur þegar kemur að þeim sem fara með slíkt vald, en mun sjaldgæfara er að slíkt gildi um öll störf, svo sem störf kennara, lækna, hjúkrunarfræðinga, sérfræðinga eða annarra sem vinna hjá ríki viðkomandi lands. Alls staðar á Norðurlöndunum hefur verið fallið frá kröfum um ríkisfang við opinber störf en slíkar reglur eru ekki í Hollandi, Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi eða á Írlandi.

Það má segja að núgildandi reglur séu hamlandi og dragi úr sveigjanleikanum á hinum opinbera vinnumarkaði. Við þurfum á alls konar fólki að halda sem hefur sérhæfða menntun eða sérstakt leyfi til að gegna því starfi sem um ræðir. Að okkar mati er ekki nein sérstök ástæða til að útiloka fólk sem hefur t.d. verið hér í nokkur ár en hefur þó ekki íslenskan ríkisborgararétt af einhverjum ástæðum og sækist kannski ekki eftir honum einu sinni.

Ákvæði eða reglur um að menn skuli hafa íslenskan ríkisborgararétt eru ekki í gildi á almennum vinnumarkaði. Þar eru almennar reglur um atvinnu- og dvalarleyfi einfaldlega látnar duga. Við sjáum ekki ástæðu til þess að ríkið setji strangari kröfur en það, en það væri að sjálfsögðu hægt að setja áfram málefnaleg skilyrði um málefnalega þætti eins og íslenskukunnáttu og þess háttar.

Það liggur fyrir að fjöldi útlendinga sem er búsettur á Íslandi hefur vaxið hratt. Við eigum að nýta þann mannauð og við eigum að bjóða þessa íbúa velkomna til starfa. Vissulega eru ákvæði í núgildandi lögum um að ráða megi útlendinga ef sérstaklega stendur á, eins og það er orðað. Ég held að við ættum að geta verið sammála um að það orðalag sé óþarfur bastarður og eigi að falla út.

Á sínum tíma þegar frumvarpið var til meðferðar hjá hv. Alþingi var því vísað til allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar og komst a.m.k. það langt að búið var að leita eftir umsögnum um það frumvarp sem er hið sama og hér er flutt. Þar hafa m.a. borist umsagnir frá tvennum stærstu samtökum launþega í landinu, annars vegar Alþýðusambandinu og hins vegar BSRB. Skemmst er frá því að segja að bæði þessi heildarsamtök sjá ekkert því til fyrirstöðu að þetta frumvarp verði að lögum.

Ég held að þetta sé liður í því sem við eigum að gera og er í takt við nútímann, er í takt við staðreyndir máls. Við erum orðin þannig samfélag að hér eru mjög margir útlendingar og ég held t.d. að talað sé um að þeir séu 14% af íbúum í Reykjavík. Við eigum ekki að leggja neinn sérstakan stein í götu þeirra til að geta starfað hér hjá ríkinu.

Ég vænti þess að frumvarpið fái góða umfjöllun og gangi eftir þessa umræðu til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.