148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

35. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina eða athugasemdina, andsvarið. Ég kýs að líta þannig á að í umsögn BSRB sé verið að hnykkja á því — þ.e. að það séu ekki efnislegir annmarkar að mati BSRB — að hér er verið að fjalla sérstaklega um ríkið og ríkisstarfsmenn þannig að þetta taki ekki til annarra. Ég lít svo á að það sé megintilgangur þeirra.

Ég skal fúslega játa að ég þori ekki að svara því afdráttarlaust hvort ákvæði um starfsmenn sveitarfélaga eru samkynja eða hvort það eru reglur um útlendinga sem vinna hjá sveitarfélögum. Ég þekki það ekki nógu vel til að ég treysti mér til að svara þessu afdráttarlaust.

En frumvarpið sem slíkt, eins og það er úr garði gert, fjallar um breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og gildissviðið takmarkast þar með við það.