148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

mótun fjármálakerfisins og sala Arion banka.

[15:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að hún hafi enga stefnu um þróun fjármálakerfisins, hún hafi hins vegar hug á að móta sér stefnu einhvern tíma síðar en ætli að byrja á að láta skrifa hvítbók sem við eigum að ræða í þinginu einhvern tíma seinna. Það er í sjálfu sér undarlegt og mikið áhyggjuefni að ríkisstjórnin hafi ekki stefnu í þessu stóra hagsmunamáli þjóðarinnar, einu af stærstu viðfangsefnum stjórnmálanna undanfarin ár.

En á meðan þetta stefnuleysi er ríkjandi er ríkisstjórnin smátt og smátt, og raunar hratt á köflum, að missa tökin á atburðarásinni. Ljóst er að ekki hefur verið vilji til að stíga inn í tilraunir vogunarsjóða til að leggja undir sig Arion banka. Hafa þær tilraunir fyrir vikið skilað þeim árangri að þeir eru þar komnir með mjög stóran hlut og áforma að auka hann enn. Þeir færa sig nú upp á skaftið og vilja virkja ákvæði frá samningum frá árinu 2009, frá hinni svokölluðu seinni einkavæðingu bankanna þegar bankakerfið var afhent vogunarsjóðunum, og ætlast til þess að ríkið selji sér þau 13% í bankanum sem ríkið á þó beint.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hyggst ríkið selja þessum aðilum hlut sinn í bankanum? Mun ríkið afsala sér forkaupsrétti að hlutabréfum í Arion banka fyrir skráningu þeirra á markað, eins og áform eru uppi um? Fram hefur komið að gerð er krafa til stjórnvalda um að þau afsali sér forkaupsrétti að hlutabréfum í bankanum. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það stefna ríkisstjórnarinnar að gera það? Er það jafnframt stefna hennar að selja 13% hlut ríkisins til þessara aðila á grunni (Forseti hringir.) kröfu þeirra þar um?