148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

stefna og hlutverk sendiráða Íslands.

[15:11]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég tel það mikið fagnaðarefni að ætlunin er að auka og styrkja utanríkisviðskiptaþjónustu okkar Íslendinga og einnig það að hæstv. utanríkisráðherra hefur skrifað undir samkomulag, m.a. við Samtök atvinnulífsins, í þá veru að fela þeim ákveðin verkefni, ákveðna ráðgjöf og fleira sem tengist því að efla utanríkisviðskiptaþjónustuna. Ég tel þetta mikið fagnaðarefni. Auðvitað vakna samt ákveðnar spurningar um það hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur mótað í þessa veru. Ætlar ríkisstjórnin að fela önnur verkefni á sviði utanríkisviðskiptaþjónustu og utanríkisþjónustu einkaaðilum? Er það stefna ríkisstjórnarinnar? Ég mun ekki fara mjög gegn því en ég vil bara fá svar um skýra stefnu.

Er ætlunin að leita til annarra hagsmunaaðila en Samtaka atvinnulífsins sem eru mjög öflug samtök? Ég þekki það mjög vel eftir að hafa starfað þar í þrjú ár. Mun ríkisstjórnin stefna að því að leita til annarra hagsmunaaðila eins og ASÍ eða einkaaðila hvað varðar það að efla utanríkisviðskiptaþjónustuna sem við viljum öll gera?

Ég hlýt líka að spyrja í ljósi þessa hvort mótuð hafi verið ný stefna hvað varðar stefnu og hlutverk sendiráðanna okkar á erlendri grundu. Utanríkisráðherra hefur kynnt okkur í utanríkismálanefnd nýja stefnu og uppstokkun varðandi sendiráðin en það hefur ekkert verið talað nákvæmlega um þessa þætti. Er forsætisráðherra fylgjandi því að færa aukin verkefni ráðuneytanna, eins og utanríkisráðuneytisins, til hagsmunaaðila, til einkaaðila úti í bæ, sem eru öflugir? Það er gott að leita til þeirrar sérþekkingar sem þar er en það yrði þá stefnubreyting af hálfu forsætisráðherra, ef ég skil þetta rétt.