148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

hækkun fasteignamats.

[15:22]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég get ekki fagnað sérstaklega svari ráðherrans að þessu sinni. Hann vísar til þess í fyrsta lagi að þetta sé markaðsákveðið en það eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á markaðsverð húsnæðis. Eitt er til að mynda, eins og á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í Reykjavík, að hér hefur verið rekin stefna í skipulagsmálum sem hefur leitt af sér miklar verðhækkanir. Af hverju á þetta að leiða til skattahækkana hjá almenningi í landinu?

Í annan stað held ég að ráðherra mætti gjarnan, ef ég má leyfa mér að segja það, kynna sér betur þjónustuna. Ef við víkjum að sumarhúsunum, frístundahúsunum, er hún vægast sagt afar takmörkuð víða. Ég býst við að ráðherra þekki þetta vegna þess hve miklar sumarhúsabyggðir eru í hans eigin kjördæmi. Ég leyfi mér að ítreka hvatningu mína til ráðherra um að tekið verði á þessu máli.

Hann segir að sveitarfélögin geti ákveðið þetta innan ákveðins bils, (Forseti hringir.) en þetta er bara ekki nógu vel afmarkað. Það verður að tengjast betur tekjum gjaldenda og þeirri þjónustu sem er veitt af hálfu sveitarfélaganna.