148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

hækkun fasteignamats.

[15:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmaður er að óska eftir að sá sem hér stendur fari í að breyta lögunum um þetta eða spyrja hvort það standi til get ég upplýst að það stendur ekki til, a.m.k. ekki að svo stöddu. Að sjálfsögðu þurfum við alltaf að fylgjast með því hvað er að gerast úti í samfélaginu, hvort reglurnar sem við setjum á þinginu séu eðlilegar.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að sjálfur hef ég setið í sveitarstjórn á Suðurlandi og þekki þetta ágætlega. Ég hef meira að segja verið formaður skipulagsnefndar og samþykkt ófáar sumarhúsabyggingarnar á því svæði þótt það sé ekki í því sveitarfélagi þar sem ég bjó.

Þess vegna segi ég að ég veit til þess að menn eru að reyna að vanda sig við að veita þjónustu. Þegar til kemur svo gríðarleg hækkun, yfir þriðjungshækkun á milli ára, vekur það auðvitað alla til umhugsunar um hvort kerfið sé nægilega gott eða hvernig hægt sé að bregðast við. Ég bendi á að ákvörðunarvaldið er í höndum sveitarfélaga. Þau geta hækkað og lækkað innan ákveðins viðmiðs (Forseti hringir.) og mörg hver gera það þegar til slíkra breytinga kemur.