148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg einboðið, að sjálfsögðu, að málið verði tekið upp í efnahags- og viðskiptanefnd, að farið sé yfir það þar. Það er ekki laust við að maður sé hugsi yfir orðum hæstv. forsætisráðherra sem virðist vera tvísaga í ræðustól Alþingis um hvort forkaupsréttur sé fyrir hendi eða ekki. Við hljótum því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Telur forsætisráðherra að forkaupsréttur sé í gildi eða ekki? Er hægt að fá það upplýst hjá ráðherranum? (Gripið fram í.) Ráðherrann vísar hér á nefnd. Ráðherrann hlýtur sjálf að hafa skoðanir á því hvort forkaupsrétturinn sé virkur eða ekki. Það skiptir mjög miklu máli varðandi framhaldið, nema ríkisstjórnin sé búin að taka þá ákvörðun að fara eigi þá leið að gefa hann eftir án þess að ræða það á Alþingi, án þess að hafa nokkra hugmynd um hvort menn vilji yfirleitt bakka ríkisstjórnina upp á þeirri vegferð.