148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er dálítið sérkennileg umræða hérna, það er eins og við séum komin aftur í kosningabaráttuna. Menn eru hér með frasa um „að bakka Ísland upp í þeirri vegferð“ og fleira slíkt. Hv. þingmenn Miðflokksins segja ýmist, ekki á allt of nákvæman hátt, frá orðum hæstv. forsætisráðherra eða heyra ekki svörin; koma þá upp strax á eftir henni og kalla eftir svörum sem hún hefur nýlega gefið.

Ég vil taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa lagt til að hv. þingmenn Miðflokksins beini þessari umræðu í réttan farveg, kalli eftir umfjöllun um málið í réttri nefnd og séu ekki að ræða um þetta á þennan hátt undir liðnum fundarstjórn forseta.