148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég vek athygli virðulegs forseta á því að hæstv. forsætisráðherra virðist enn ekki hafa áttað sig á því hvernig málið er vaxið. Hæstv. ráðherra rifjar aftur upp fund sem hún sat á sínum tíma sem þingmaður í efnahags- og viðskiptanefnd. Hún ranghermdi reyndar í fyrri svörum sínum að sá fundur hefði verið þegar ég var forsætisráðherra og um mál sem þá voru í gangi. Á þeim fundi var verið að ræða aðgerðir sem höfðu þá farið fram fyrir tilstuðlan þáverandi ríkisstjórnar í upphafi árs í fyrra, 2017, og verið að ræða hvort ríkisstjórnin eða stjórnvöld almennt hefðu með aðgerðum sínum, klúðri hugsanlega, glatað þeim forkaupsrétti sem var til staðar að þeim 30% sem þá var um að ræða.

Það sem ég er að spyrja hæstv. forsætisráðherra um nú er hvort hún telji að ríkið eigi að afsala sér forkaupsrétti að viðbótarbréfunum í samræmi við kröfur vogunarsjóðanna sem eru að fara fram á að ríkið afsali sér forkaupsrétti sem hlýtur þá, herra forseti, að vera til staðar þótt auðvitað geti verið mikið tjón af því ef forsætisráðherra landsins lýsir því yfir einhliða að hún telji að slíkur réttur sé ekki til staðar. Þá hljóta þeir að hugsa: Ja, við þurfum þá ekkert að hafa fyrir því að fara fram á að ríkið afsali sér þessum rétti.