148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég kem hingað upp vegna orða eins þingmanna ríkisstjórnarflokkanna. Það er nefnilega svo að það sem flokkarnir segja fyrir kosningar skiptir máli. Hér er Miðflokkurinn, lýðræðislega kjörinn með sterkt umboð, að fylgja eftir, alveg óháð því hvaða skoðun við höfum á því máli, baráttumáli sínu úr kosningunum. Það kann að vera erfitt fyrir þingmenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins að kannast við það sem þeir sögðu fyrir kosningar. Þingmenn Miðflokksins eru að fylgja eftir, mjög eðlilega, einu af sínum hjartans málum.

Ég styð Miðflokkinn í því að leita allra upplýsinga því að þær eru frekar misvísandi. Ég styð Miðflokkinn í því að nýta sér ákvæði í þingsköpum til að fá allt fram. Því málið er risastórt. Það hefur mikla þjóðhagslega þýðingu fyrir okkur öll. Ég tel eðlilegt að við þingmenn, allra flokka, lýðræðislega kjörnir þingmenn, styðjum aðra flokka í að afla (Forseti hringir.) upplýsinga í máli sem þeir eru að fylgja eftir frá kosningum. Það er eðlilegt að við sem viljum kannast við það sem sagt var fyrir kosningar fylgjum því síðan eftir eftir kosningar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)