148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:04]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að óska eftir sérstakri umræðu um þetta stóra verkefni sem við erum nú að ráðast í. Ég byrjaði að tala fyrir mikilvægi þess að setja langtímaorkustefnu fljótlega eftir að ég tók við embætti fyrir rúmu ári, m.a. í ræðum á opinberum vettvangi, og ég fagna þess vegna mjög áherslu nýrrar ríkisstjórnar á verkefnið.

Varðandi það hvað felst í orðalagi stjórnarsáttmálans um að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð segir þar á eftir að í þeim tilgangi þurfi að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu og tengja betur lykilsvæði. Með þessum hætti má nýta sem best þá getu til orkuframleiðslu sem þegar er til staðar og lágmarka sóun. Einnig má nefna að ýmsir möguleikar eru til að auka vinnslugetu núverandi virkjana með uppfærslu á búnaði og fleiru.

Þetta forgangsverkefni verður tekið til frekari skoðunar í starfshópi um gerð langtímaorkustefnu. Til stendur að hann hefji störf síðar í þessum mánuði en þann 19. janúar sl. samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um skipan hans.

Varðandi seinni hluta spurningarinnar þarf við langtímaorkustefnu að horfa til áætlaðrar orkuþarfar til langs tíma líkt og hv. þingmaður kom inn á. Í þeirri greiningu þarf að taka tillit til hvers kyns stefnumörkunar stjórnvalda sem hefur áhrif á orkuþörfina, t.d. yfirlýst áform um orkuskipti.

Orkuspárnefnd telur að til ársins 2050 þurfi að bæta við 670 megavöttum ef þjóðfélagið þróast með svipuðum hætti og það hefur gert, án nýrra stórnotenda. Næstum einn fjórði af því er vegna orkuskipta og þá erum við ekki bara að tala um bifreiðar.

Hver skynsamleg viðbót við núverandi orkuframleiðslu er á næstu árum er ein af þeim spurningum sem greina þarf í vinnu starfshópsins. Að mínu mati þarf að tryggja að metnaðarfull áform um orkuskipti geti náð fram að ganga, að orkustefna styðji við skynsamlega atvinnu- og byggðastefnu, að meira jafnræðis sé gætt á milli ólíkra landshluta þegar kemur að orkumálum og möguleikum til fjölbreyttrar atvinnusköpunar og að ávallt sé gætt að jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Það er auðvitað vandmeðfarið verkefni.

Orkuspárnefnd hefur sett upp þrjár sviðsmyndir til viðbótar við orkuspá. Sviðsmyndin hægar framfarir hljóðar upp á 470 megavött, sjálf raforkuspáin hljóðar upp á 670 og sviðsmyndin græn framtíð, þar sem gert er ráð fyrir auknum hagvexti og meiri áherslu á orkuskipti, hljóðar upp á 870. Í þessum þremur kostum eru engir nýir stórnotendur. Rétt er að nefna að það þarf ekki mikla viðbót hjá núverandi stórnotendum til að gerbreyta þessari mynd og hið sama gildir um gagnaver eða aðra nýja stórnotendur sem við gætum vel viljað semja við.

Fjórða sviðsmyndin heitir einmitt aukin stórnotkun. Þar eykst notkun stórnotenda jafn hratt og undanfarin tíu ár og við það næstum tvöfaldast orkuþörfin frá þriðju sviðsmyndinni og verður 1.720 megavött.

Herra forseti. Á næstu dögum mun ég mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þar verða nánar útfærð þau áhersluatriði sem er að finna í stjórnarsáttmálanum um flutnings- og dreifikerfi raforku, m.a. samspil þess annars vegar að tengja betur lykilsvæði í flutningskerfinu og hins vegar að fara ekki í línulagnir yfir hálendið.

Varðandi djúpboranir sem hv. þingmaður kom inn á verður í skipunarbréfi starfshóps um gerð langtímaorkustefnu komið inn á djúpboranir eftir jarðvarma, möguleika til orkuöflunar á því sviði og áhrif þess verkefnis á orkustefnuna. Djúpborunarverkefnið er eitt af áhugaverðustu nýsköpunarverkefnunum á sviði jarðhita í heiminum sem gæti skilað miklum ábata og er eitt af framlögum Íslands í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Í skipunarbréfinu verður starfshópnum einnig falið að skoða nánar nýja virkjunarkosti, þ.e. nýjar leiðir við orkuöflun, og nær það jafnt yfir vindorkuver, sjávarorkuver og varmadælur, auk annarra mögulegra tæknilegra nýjunga. Fjallað verður um fjölbreyttar leiðir til orkuöflunar með áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun og þess gætt að engar tæknilausnir verði skildar út undan í þeim efnum.

Málefni um mögulegan raforkustreng til Bretlands eru auðvitað efni fyrir aðra sérstaka umræðu en það verður einnig hluti af vinnu við orkustefnuna. Það sem við vitum eftir vinnu verkefnisstjórnar sæstrengs sem kynnt var í júlí 2016 er að kostnaðarábatagreining á verkefninu sýnir að verkefnið nær ekki lágmarksarðsemi nema til komi beinn stuðningur frá breskum stjórnvöldum. Að því gefnu gætu jákvæð áhrif á landsframleiðslu verið umtalsverð. Sæstrengur myndi hins vegar kalla á fjárfestingar í næstum 1.500 megavöttum af nýju uppsettu afli, auk mikilla styrkinga á flutningskerfinu. Ég hef sagt almennt um sæstrenginn að mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að skoða það nánar vegna þess að við erum í dag með verkefni sem við höfum ekki nægilegar upplýsingar um hvort er gott og við höfum heldur ekki nægilegar upplýsingar til að slá það út af borðinu. Það á mjög mikið eftir að vinna áður en slík ákvörðun er tekin.

Orkuöflun og flutningur hennar er lífæð samfélagsins og það er tímabært að við mörkum okkur stefnu til langs tíma sem við svo endurskoðum á fjögurra til fimm ára fresti. Að lokum vil ég bara þakka hv. þingmanni fyrir (Forseti hringir.) að óska eftir þessari umræðu.