148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:14]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga málefni. Í vinnu við langtímaorkustefnu skiptir miklu að jafnhliða sé hugað að sjálfbærni og náttúru landsins. Leggja verður áherslu á að hagnýta hreina orku og að það sé gert skynsamlega. Einn liður í því er rafbílavæðing, bæði einkabíla og almenningsvagna. Þarna liggja framtíðarmöguleikarnir.

Stór þáttur í nýtingu á hreinni orku er rafvæðing hafna. Víða um land er dreifikerfi raforku í því ástandi að ekki er hægt að tengja skipaflotann við rafmagn við hafnarbakkann og er verið að keyra ljósavélar með dísilolíu til að halda búnaði í skipum gangandi. Áhugavert er í því sambandi að skoða hugmyndir um virkjun hreyfiafls ölduróts við hafnarmannvirki, t.d. við sjóvarnargarða, og nýtingu sjávarfalla til raforkuframleiðslu.

En flutningskerfið verður að vera eitt af forgangsverkefnunum og hlýtur að vera stór partur af langtímaorkustefnunni. Nú eru nokkur svæði á landinu sem ekki eru tengd hringtengingu og mega því búa við skert raforkuöryggi. Í nútímasamfélagi er það ekki viðunandi. Á þeim svæðum þar sem slík staða er uppi þarf að vera tryggt varaafl sem knúið er af dísilolíu.

Það er því ekki ásættanlegt að við skulum nýta okkur jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa í eins miklum mæli og nú er raunin.

Í því sambandi er nauðsynlegt að kafa ofan í raforkulögin við endurskoðun á langtímaorkustefnunni. Í raforkulögum er aðaláherslan á að tengja stórnotendur og stóriðjur inn á raforkukerfið en á meðan hefur setið á hakanum að byggja upp dreifikerfið um land allt. Við gerð langtímaorkustefnu verðum við að tryggja að sú orka sem þegar hefur verið (Forseti hringir.) virkjuð sé nýtt á eins sjálfbæran hátt og mögulegt er. Þar kemur uppbygging flutningskerfis fyrst og síðast inn.