148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum fyrir rúmum tveimur mánuðum, þ.e. 30. nóvember sl. Sáttmáli um störf ríkisstjórnarinnar var kynntur með pompi og pragt og hróðugir ráðherrar kynntu ný vinnubrögð og stórsókn á mörgum sviðum. Sjálfsagt og eðlilegt er að veita nýrri stjórn svigrúm til að sanna sig en satt að segja lofar upphafið ekki góðu um þrótt og verkgleði ríkisstjórnarinnar og fá merki eru um stórsókn eða bætt vinnubrögð.

Tími þingsins hefur ekki verið nýttur til þess að taka mál ríkisstjórnar til meðferðar. Reyndar hafa fá mál komið til þingsins frá ríkisstjórninni. Lausleg athugun sýnir að ríkisstjórnin hefur lagt fram u.þ.b. 25 mál, þar af eru níu mál endurflutt frá fyrri ríkisstjórn, tvö innleiðingarmál vegna EES og þá voru einhver mál sem voru langt komin í undirbúningi fyrri ríkisstjórnar.

Á þingmálaskrá ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sýnast mér vera tæplega 130 mál af ýmsu tagi. Samkvæmt þessu eru rúmlega 100 mál ekki komin fram og er það ekki lítið og vandséð að þingið ráði við þann málafjölda fyrir þinglok í vor. Auk þessara mála bíður meðferðar og afgreiðslu fjöldi þingmannamála frá þingmönnum, jafnt meiri og minni hluta.

Það sem að framan er rakið bendir hvorki til bættra vinnubragða né stórsóknar, a.m.k. virðist sú sókn ómarkviss og lítt undirbúin ef marka má þau mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Ég kalla því eftir því að hæstv. forsætisráðherra, verkstjóri ríkisstjórnarinnar, taki sig á og standi undir orðum sínum um bætt vinnubrögð og samráð við þingið og leggi fram sín stefnumarkandi mál svo að þingið geti fjallað um þau með vönduðum og yfirveguðum hætti.