148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er með miklum trega sem ég stend hér og tala um það sem heitir mannlegur harmleikur. Treginn verður ekki umflúinn því að ég vil axla ábyrgð, ég vil taka á erfiðum verkefnum af þeirri festu sem mér ber skylda til sem lýðræðislega kjörnum fulltrúa á Alþingi Íslendinga.

Hún hefur varla farið fram hjá neinum, #metoo-byltingin, bylting sem við megum vera stolt af að fá að upplifa, bylting sem er einstök í veraldarsögunni. Ég ætla ekki að tala meira um hana. Ég ætla heldur að tala um vöntun á byltingu fyrir börnin okkar, fyrir þann samfélagshóp sem er viðkvæmastur og gersamlega varnarlaus gagnvart hvers kyns níðingsverkum sem á þeim kunna að vera unnin. Mér finnst með ólíkindum sú þöggun sem umlykur kynferðisofbeldi gegn börnum. Barnaníð er eitthvað það viðurstyggilegasta sem ég get ímyndað mér, varnarlaus börn, jafnvel í umsjá aðila sem þau treysta. Börn sem er nauðgað í svefni, börn sem er byrlað ólyfjan til þess að þau séu meðfærilegri við viðurstyggilega iðju þess sem hana fremur.

Það er mál til komið að draga þá til ábyrgðar sem á að heita að beri umhyggju fyrir börnum okkar og verndi þau. Það er löngu tímabært að við stígum fram, köllum eftir byltingu fyrir börnin okkar og áttum okkur á því að það er ekki nóg að vera embættismaður, ekki nóg að vera í fínni stöðu, við verðum líka að vera burðug til að standa undir því og bera ábyrgð. Og ef manni hefur brugðist bogalistin á hann að hafa vit á að segja af sér og gefa öðrum kost á að vinna vinnuna sína.