148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann mjög vel að meta að þetta frumvarp boði gegnsæi og yfirsýn. Ég verð bara að segja eins og er að ég tel frumvarpið efnislega mikilvægt, ekki síst í ljósi þess hvers konar viðskiptagjörninga verið er að fjalla um. Þeir eru í eðli sínu ekki endilega gegnsæir nema til komi eitthvert regluverk um þá.

Þá er annað sem ég velti fyrir mér í sambandi við lestur frumvarpsins. Nú frem ég þann pontuglæp að spyrja um eitthvað sem ég veit ekki svarið við, það á maður víst ekki að gera en ég ætla að gera það samt: Hversu fyrirferðarmiklir eru þessir gjörningar í íslensku efnahagslífi sem hingað til hefur verið hægt að framkvæma án þess að láta neinn vita? Hvernig vitum við hversu fyrirferðarmiklir þessir gjörningar, þessir OTC-gjörningar, eru í íslensku hagkerfi? Er það eitthvað úr hruninu eða eftirköstum þess sem gefur okkur vísbendingu um það? Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt þá fullyrti hann að þessir gjörningar væru ekki fyrirferðarmiklir vegna smæðar hagkerfisins. Ég trúi því í meginatriðum. Svo er hitt sem fær mig til að efast pínulítið; þó að hér sé hagkerfið mjög lítið hefur það ekki endilega hindrað menn í að fremja mjög stóra fjármálagjörninga. Ég velti fyrir mér: Hvernig er þessi stærð þekkt? Ég segi það fyrir fram að ég skil það mjög vel ef við þurfum mál eins og þetta til þess að svara þeirri spurningu almennilega, en þá vekur það aftur upp spurningu um hvort eftirlitið sé viðunandi.

Alla vega. Ég leyfi hæstv. ráðherra að botna þessar vangaveltur mínar.