148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú reyndar fyrstur manna til að taka upp hanskann fyrir þingmenn sem sitja hjá. Það er alveg lögmætt atkvæði og þingmenn gera það af margvíslegum ástæðum. Stundum eru þeir einfaldlega ekki vissir um hvort forsendurnar sem þeir vilja leggja til grundvallar ákvörðun sinni séu skýrar eða ekki, eins og í þessu tilfelli.

Ég er efnislega sammála frumvarpinu. Ég er óviss um þetta með stjórnarskrána. Það getur vel verið að ég sitji bara hjá í þessu máli. Ég hef ekki enn gert upp hug minn. Það er ekkert að því í sjálfu sér. En ræða hv. þingmanns og núverandi forsætisráðherra var hins vegar alveg skýr að mínu mati; sá ágæti hv. þingmaður taldi þetta ekki uppfylla skilyrði stjórnarskrár, taldi þetta alla vega mjög líklega vera brot á stjórnarskrá.

Þetta er ekki óumdeilt. Það er gott og vel að sérfræðingarnir séu sammála um eitthvað, en það dugar ekki til. Við hér inni þurfum að vera sammála um það. Við þurfum ekki endilega að vera sammála um hvort okkur líki vel við frumvarpið, en við þurfum að vera sammála um það hvað stjórnarskráin þýðir. Nú liggur það fyrir að á þessu kjörtímabili og á því seinasta, þó að stutt hafi verið, og á kjörtímabilinu þar áður þá er það ekki skýrt. Það liggur fyrir. Það þýðir ekkert að benda á einhverja sérfræðinga til að laga það vandamál, því að það eru einfaldlega ekki sérfræðingarnir sem stjórna þessu, það eru óbreyttir borgarar sem eru kjörnir til Alþingis í alþingiskosningum sem stjórna þessu. Þeir þurfa að skilja þetta sjálfir alla vega nógu vel til að vera vissir um hvort þetta stangist á við stjórnarskrá eða ekki.

Mig langar að halda því til haga að í þessari atkvæðagreiðslu um málið sem hv. þingmaður nefndi hér, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, sem vissulega er ekki sama mál og þetta, voru það fimm þingmenn Pírata sem greiddu atkvæði gegn því; allir aðrir ýmist sögðu já eða greiddu ekki atkvæði. Það voru alls 18 þingmenn sem greiddu ekki atkvæði væntanlega af sömu ástæðu. Þá voru það 27 á þeim tíma sem greiddu atkvæði með frumvarpinu. Það er bara ekki nóg. Við ættum að geta sammælst um þetta. Þetta eru góð mál. Við eigum að geta sammælst um þau. Stjórnarskráin á að mínu mati ekki að þvælast fyrir okkur þegar kemur að því.