148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil líka taka það skýrt fram að ég greiddi atkvæði með frumvarpinu sem ég vitnaði til afgreiðslu á, þannig að mitt mat var á þeim tíma, og er enn, að það hafi staðist stjórnarskrá, þannig að það komi nú skýrt fram.

Ég vildi taka til máls fyrst og fremst vegna þess að ég tel, og tek undir með hv. þingmanni, að það sé vont ef vafi leikur á svona stórum atriðum í því sem við erum að gera varðandi innleiðinguna og hvað má og hvað má ekki, hvað er heimilt að framselja og hvað ekki. Þess vegna hef ég orðið talsmaður þess að það hljóti að vera einn stærsti þátturinn í endurskoðun stjórnarskrárinnar að laga hana að nútímanum hvað varðar samstarf Íslands við önnur ríki. Við eigum að ganga býsna langt í því að setja skýrar heimildir um að við getum tekið þátt í margs konar samstarfi eiginlega á hvaða grundvelli sem er.

Það kemur svo sem engum á óvart að ég mundi vilja ganga svo langt að það mundi t.d. heimila okkur að ganga í Evrópusambandið, við værum tilbúin undir það. Það er ekki þar með sagt að það eigi að geta gerst bara með mjög einföldum hætti, það er allt önnur umræða. Ég held bara að í nútímanum eigi Ísland sem fullvalda sjálfstætt ríki að vera undir það búið að geta tekið þátt í því samstarfi sem þingið og Íslendingar ákveða að taka þátt í. Við eigum að hugsa fram í tímann og vera undir það búin. Síðan er allt önnur spurning hvort það verður einhvern tímann samþykkt, t.d. það sem ég nefni með aðild að Evrópusambandinu. En við eigum að vera undir þetta allt saman búin en ekki að fara í fát ef sú staða kemur upp að við viljum allt í einu gera það.