148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[16:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að greina okkur frá þessu frumvarpi og innihaldi þess. Það ber að fagna ýmsum tillögum til breytinga á lögum um íslenskan ríkisborgararétt sem þar eru kynntar, sér í lagi þeim breytingum er lúta að ríkisfangslausum börnum.

Þó er vert að benda á að gerð er sú krafa að barn dvelji hér í þrjú ár frá fæðingu ríkisfangslaust og má velta fyrir sér hvort þetta þurfi ekki að skoða vel í þeirri nefnd sem fær frumvarpið til meðferðar af því að þrjú ár í lífi barns geta verið heillangur tími og ríkisfangslaus eiga börn ekki að vera.

Það er eitt atriði sem ég vil líka velta fyrir mér, það er þetta með hvenær barn er skráð hingað til lands. Er barn skráð við komu eða þegar það hefur öðlast hér dvalarleyfi? Sá háttur hefur verið viðhafður hingað til að tíminn byrjar í raun ekki að telja fyrr en búið er að skrá barnið inn í landið og það öðlast dvalarleyfi. Sá tími sem líður frá komu barns til landsins og þar til það hefur fengið einhverja stöðu hér á landi getur verið allt að tvö ár og jafnvel lengur. Þá hefur barn dvalið hér ríkisfangslaust í fimm ár, ef svo er. Ég spyr: Hvenær á þessi tímafrestur að byrja að líða?

Ég sé að tíminn er að renna út, ég mun bera fram aðra spurningu hér í seinni ræðu.