Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[16:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru auðvitað allt málefnalegar ábendingar hjá hv. þingmanni er lúta að því hver hafi haldið um penna og samið frumvarp sem hér er lagt fram. Ég bendi á að sá ráðherra sem hér stendur er líka þingmaður og hefur allar heimildir til að leggja fram frumvörp eins og aðrir í þessum sal. Það er þó ekki í þessu tilviki að sú sem hér stendur hafi samið frumvarpið. Það kemur skýrt fram í greinargerð og athugasemdum með því að það er samið í dómsmálaráðuneytinu og að frumvarp sama efnis, sem var samið í innanríkisráðuneytinu, hafi áður verið flutt og ekki var nú sá ráðherra sem hér er til starfa í innanríkisráðuneytinu.

Það kemur líka fram að við undirbúning frumvarpsins hafi meðal annars verið haft samráð við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og mjög víðtækt samráð við ýmsa aðila, Umboðsmann barna og fleiri. Það kom líka fram við afgreiðslu þessa sama máls að efni til á fyrri þingum að haft var víðtækt samráð við Rauða krossinn og aðra sem komu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og veittu ágætar ábendingar og tekið var tillit til margra þeirra við endurframlagningu og endursamningu frumvarpsins. Hv. þingmaður getur sofið rólega ef hún treystir ekki þessum ráðherra fyrir þeim frumvörpum sem ráðherrann leggur hér fram.

En efnislega er hv. þingmaður að ræða hér um frestina sem meðal annars koma skýrt fram í 5. gr., að miðað er við að fólk hafi hlotið alþjóðlega vernd hér og haft fasta búsetu, það þarf ekki að deila um tímamörk þegar kemur að því að meta hversu lengi menn hafa dvalið hér sem er forsenda fyrir veitingu ríkisborgararéttar á grundvelli ríkisfangsleysis.