148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í gær fengum við marga gesti en þar var kynnt skýrsla starfshóps samgönguráðherra um fjármögnun stofnleiða til og frá höfuðborgarsvæðinu, sem er mál sem snýst um gjaldtöku á stofnleiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Farið er að Borgarnesi, að flugvellinum og austur fyrir Selfoss. Er kostnaðurinn sagður vera um 55 milljarðar og að hægt væri að byrja strax á næsta ári og meira að segja væri hægt að byrja á sumum vegarköflum á þessu ári. Kynningin gekk út á að sýna hvers konar gjald yrði tekið fyrir akstur til þessara staða.

Án þess að taka afstöðu með eða á móti fyrirkomulaginu er vert að þingheimur hafi í huga núna að fjármálaáætlun verður lögð fram eftir tæpa tvo mánuði. Í þeirri áætlun, í samgönguáætlun, mun koma skýrt fram hvort stjórnvöld ætli að fara í þessar framkvæmdir eða ekki. Ef ekki kemur fram í fjármálaáætlun að þessar framkvæmdir séu fjármagnaðar er annaðhvort verið að slá þeim aðgerðum á frest eða fara út í einkaframkvæmd. Það eru einu möguleikarnir. Ef stjórnvöld ætla að vera í samvinnu við þingið er betra að fara í það núna áður en fjármálaáætlun verður birt. Það er alveg lykilatriði. Það hefur ekkert verið talað við okkur eftir því sem ég best veit. Annars verður það einhvers konar moð á meðan við fjöllum um fjármálaáætlunina. Það held ég að sé ólíklegt til þess að bera árangur miðað við fyrri reynslu, þ.e. að tækifæri gefist til að koma inn 55 milljörðum aukalega í fjármálaáætlun eftir að búið er að leggja hana fram. Ef stjórnvöld vilja samvinnu þingsins um þetta mál þurfa þau að gera það áður (Forseti hringir.) en fjármálaáætlun verður lögð fram.