148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Vímuefni eru hættuleg, sennilega öll, alla vega langflest. Það eru misjafnar hættur sem felast í misjöfnum vímuefnum og þau eru mjög fjölbreytt. Vímuefni geta valdið einstaklingum miklum skaða og jafnvel samfélaginu sjálfu. Lausn samfélagsins við þeim vanda er jafnan sú að draga úr framboði og draga úr eftirspurn. Til þess að draga úr framboði er áherslan fyrst og fremst á dreifingu efnanna. Það er góðra gjalda vert að reyna en er hins vegar ekki endilega lausn. Með því að draga t.d. úr dreifingu löglegra efna sem læknar ávísa er hætt við að fólk fari í ódýrari, ólögleg efni og er hugsanlegt núna að í fyrsta sinn verði heróín raunverulegur hluti af íslenskri vímuefnamenningu undirheima. Það eru hættur sem felast í þessu líka. Þetta er ekki það einfalt að við getum dregið úr dreifingunni og þá leysist allt. Þetta er flóknara en svo, þótt auðvitað sé góðra gjalda vert að reyna.

Það er sjálfsagt að reyna að hafa stjórn á dreifingunni að einhverju marki en þörfin er enn til staðar. Þegar fíkill fær ekki efnið sitt er þörfin enn þá til staðar. Hún hverfur ekki sisvona. Það er vandinn. Stundum er talað um að vímuefnavandamálið sé í raun og veru edrúvandamál, þ.e. fólk á erfitt með að vera edrú. Það bara fúnkerar ekki edrú í lífinu, afsakið slettuna.

Hitt er síðan að draga úr eftirspurn, sem ætti að mínu mati að vera aðalatriðið. Við gerum það t.d. með forvörnum, sem eru sennilega mikilvægasti þátturinn, alla vega með þeim mikilvægari. En við gerum það því miður líka með refsingum. Við tökum þátt í því sem samfélag að jaðarsetja hópa sem eiga við slík vandamál að stríða. Viðbrögð samfélagsins við vímuefnaneyslu, sérstaklega áður en neyslan sjálf er orðin að vandamáli, er hluti af vandanum sjálfum. Skaðaminnkun felur í sér að ráðast að vandamálum tengdum neyslunni án þess endilega að reyna að fá fólk til þess að hætta þá og þegar, enda á fólk auðveldara með að hætta þegar skaðinn er sem minnstur, það hlýtur að segja sig sjálft. En við eigum að hætta að refsa neytendum í viðleitni sinni við að takast á við vandann. Þegar kemur að því að draga úr eftirspurn eigum við að (Forseti hringir.) einblína á tvo hluti: Forvarnir og skaðaminnkun. Forvarnir og skaðaminnkun. Forvarnir og skaðaminnkun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)