148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

höfundalög.

36. mál
[15:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki mörgu að bæta við ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar um þetta efni en ég verð samt aðeins að koma upp og ræða þetta.

Ef hugmyndin um höfundarétt væri að koma fram í dag tel ég nánast óhugsandi að hún yrði innleidd, alla vega á þann hátt sem er í dag. Ég vil árétta að Píratar eru alls ekki á móti höfundarétti. Það eru mjög mörg mikilvæg dreifingarmódel sem virka einungis vegna höfundaréttar, t.d. opinn hugbúnaður, og mörg leyfi, sem opnum hugbúnaði er dreift undir, eru einungis einhvers virði vegna höfundaréttar. Þannig að við erum alls ekki á móti höfundarétti.

Hins vegar var höfundaréttur settur á löngu fyrir tölvutæknina og tíma internetsins sér í lagi og þeirra ótrúlegu hæfileika sem mannkynið hefur til að vinna úr gögnum og nýta þau á uppbyggilegan hátt. Við þetta verða til ýmis vandamál. Eitt þeirra er að yfirvöld, að hluta til, eða rétthafastofnanir af ýmsu tagi, hafa tilhneigingu til að reyna að grípa inn í hluti sem best væri fyrir okkur öll að ekki væri gripið inn í.

Þetta mál er einkenni þessarar stöðu. Við búum hér á hinu fagra, æðislega Íslandi og tölum þetta dúndursamlega tungumál, íslensku. Ef fram fer sem horfir er veruleg hætta á að tungumál okkar deyi út. Enginn ágreiningur er um þetta, að mér vitandi, þótt góðir hlutir hafi reyndar gerst nýlega í þeim efnum. Það virðist vera pólitískur stuðningur við að bjarga íslenskunni og halda í höndina á henni í gegnum þær tækniframfarir sem verða á 21. öldinni sem fela í sér að við erum í reynd meira eða minna öll orðin tvítyngd, á íslensku og ensku. Þar sem enska er einfaldlega gagnlegra mál til samskipta við nokkurn annan en Íslending er auðvitað ákveðin tilhneiging til að hún fari fram fyrir íslenskuna á ýmsum sviðum. Sú þróun mun ekki snúast við, ekki eru líkur á því.

En við viljum öll halda í tungumálið. Af hverju? Ég ætla að bíða aðeins með þær heimspekilegu vangaveltur en mun kannski koma að þeim í 2. umr., ég sé til. En til þess að bjarga íslenskunni þurfum við að geta unnið að þeim hugbúnaðarverkefnum sem miða að því að greina hana og halda í hana með öllum þeim mætti sem mögulegur er. Það er vandamál í dag að einstaklingar sem sýna því áhuga að búa til hugbúnað, ýmist vefsetur eða öðruvísi hugbúnað til að greina íslenskuna, geta það ekki eða gera það á lagalega gráu svæði sem er svolítið óþægilegt. Það eru verkefni í gangi sem ég er ekki viss um að ég vilji nefna hér í pontu af ótta við að þeir aðilar sem standa að þeim góðu og mikilvægu verkefnum fái allt í einu símtal fá einhverjum sem gerir athugasemdir við að efni sé notað.

Það komst í fréttir á sínum tíma að hér var breskur herramaður að læra íslensku — ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að hitta hann einu sinni — sem vildi nota gögn frá Árnastofnun til að búa til vefsetur. Ég man ekki hverju hann var að pæla í þá. En þá lenti hann í vandræðum vegna þess að hann mátti ekki nota gögnin. Hann var hindraður í því að nota þau. Þarna var verkefni, sem hefði orðið okkur öllum til hagsbóta, stöðvað. Það var af málefnalegum ástæðum. Í fyrsta lagi skilst mér að Árnastofnun hafi sjálf ekki verið með á hreinu hvort hún gæti dreift gögnunum á þann hátt að fleiri aðilar mættu dreifa þeim líka. Þá verður til þetta flækjustig sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór yfir áðan. Það er hreinlega erfitt að komast að því hvort maður geti dreift einhverju jafnvel þótt maður sjálfur hafi ákvörðunarvaldið. Árnastofnun getur verið algerlega af vilja gerð til að hafa þetta sem frjálsast — ég hygg reyndar að sú skoðun sé ríkjandi á stofnuninni — en lendir í vandræðum með það vegna þess að lögin, höfundarétturinn, eru hönnuð þannig að þessi kjánalegu vandamál verða til.

Fyrst ég er að nefna þetta langar mig líka að skora á þá aðila sem taka eftir því að efni frá þeim er notað til þess að greina íslensku, eða búa til hugbúnað sem meðhöndlar hana á einhvern hátt, að gefa það opinberlega út að ekki verði sóst eftir að hindra þá notkun. Það væri fallega gert. Auðvitað hafa höfundar ákveðin réttindi, eðli málsins samkvæmt, en það væri fallega gert. Ef við neyðum þessa ágætu áhugavísindamenn til að halda sig við efni sem ekki er bundið höfundarétti, svo sem ræður Alþingis, yrði það kannski frekar einsleitt efni og endurspeglaði ekki endilega alla flóru íslensks mannlífs eða menningar. Leyfi ég mér að fullyrða.

Kannski er ekki frá meiru að segja um þetta í bili en ég vona að þetta mál nái í gegn, vona að þessi breyting takist. Ég vona sér í lagi og umfram allt að sá stuðningur sem yfirvöld hafa þó sýnt við þann málstað að bjarga íslenskunni á 21. öld haldi áfram og aukist ef eitthvað er.