148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:04]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fróðlegt að hlusta á boðbera frelsisins og frjálslyndis, við eigum að treysta fólki. Ég get alveg tekið undir það. En enginn af þeim þingmönnum hér gat treyst fólki til þess að kaupa áfengi nema í ríkisverslun. Enginn af þeim, en gott og vel. Ekki er mikið frjálslyndi í því.

Ég verð að viðurkenna að íhaldsmaðurinn náði aðeins tökum á mér núna, ekki það að … (HKF: Þarf ekki mikið til.) Jú, það þarf stundum mikið til. Ekki það að ekki megi liðka til og fara yfir þetta og breyta. En svo les maður hér um að réttur til nafns njóti verndar stjórnarskrárákvæðis, og talað um friðhelgi einkalífs. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort að rétturinn til að bera ekki nafn njóti ekki verndar líka. Því að hér er krafa, skylt að bera nafn. Ef ég vil ekki bera neitt nafn, á ég engan rétt á því? Það er mjög fróðleg spurning.

Svo er ég líka að velta fyrir mér af því að við tölum mikið um vanlíðan fólks. Það sem getur stundum verið skaðlegt, þá bönnum við það, sumt er skaðlegt, höfum takmarkanir vegna þess að það getur skaðað. Miðað við þau nöfn sem maður hefur oft séð að fólk vill gefa börnunum sínum þá getum við alveg verið viss um að það yrði mörgum börnum skaðlegt. (Gripið fram í: Til þess eru barnaverndarlögin.) Til þess eru barnaverndaryfirvöld! Ætla barnaverndaryfirvöld að fara að skipta sér af þessu? (Gripið fram í: Já.) Það mun ekki gerast. Fólk getur gefið hvaða nafn sem er. Ég má heita kvenmannsnafni. Ég má gefa syni mínum kvenmannsnafn. (Gripið fram í.) Nei, (Forseti hringir.) samkvæmt þessu. Trúa menn því að þetta verði ekki skaðlegt einhverjum börnum? Ég trúi ekki á þetta frjálslyndi.