148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Þórunni Egilsdóttur að húsnæði, ásamt fæði og klæði eru meðal grunnþarfa mannsins. Félagslegur stöðugleiki snýst um að þetta sé í lagi og það hrökkvi ekki allt af hjörunum ef eitthvað smávegis bregður út af.

Félagslegur stöðugleiki er ein af þremur grunnstoðum norræna kerfisins ásamt efnahagslegum stöðugleika og stöðugu fyrirkomulagi á vinnumarkaði. Ef ein stoðin er veik virkar kerfið ekki. Því miður stöndum við frammi fyrir því. Ætlum við að styrkja þetta kerfi eða ætlum við að láta það drabbast niður?

Fyrstu fjárlög ríkisstjórnarinnar valda mér vonbrigðum. Það liggur fyrir ráðast þarf í stórkostlegar umbætur á hinum félagslegu þáttum en á sama tíma er gefinn eftir 21 milljarður kr. í tekjuáform síðustu ríkisstjórnar og gengið á forða. Þetta verður til þess að við munum hugsanlega standa frammi fyrir hærri verðbólgu og auknum vöxtum.

Afleiðingin er alvarlegust fyrir þær sakir að ríkisstjórnin er ekki í sömu færum til að ráðast í þau verkefni sem felast í því að styrkja félagslegan stöðugleika og þeir lakast settu sitja eftir.

Skýrslan sem um ræðir teiknar ágætlega upp þann vanda, sem og orð mjög margra þingmanna. Þess vegna langar mig spyrja hv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn til að leggja töluvert á sig í vinnu við setningu nýrrar fjárhagsáætlunar og taka undir tillögu Samfylkingarinnar sem lýtur að því að byggja fimm þúsund leiguíbúðir sem eru ekki byggðar á hagnaðarsjónarmiðum á allra næstu misserum.