148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni og hæstv. velferðarráðherra fyrir að við skulum vera að taka þessa umræðu í dag.

Ég vil líta pínulítið í aðra átt en hefur verið gert. Ég þakka Íbúðalánasjóði að sjálfsögðu fyrir góða og gagnlega skýrslu. Við sjáum fram á þúsundir íbúða, þörf er fyrir hátt í 20.000 íbúðir næstu tvö árin. Við eigum lög nr. 44/2008, sem eru um húsnæðismál, og þar undir er hin sjálfstæða stofnun sem Íbúðalánasjóður er. Það dapra í stöðunni er, ef við lítum til þess tíma sem enginn hefur gleymt, hrunstímans svokallaða, að Íbúðalánasjóður hefur selt frá sér 4.000 eignir sem voru teknar af fjölskyldum eftir hrun og stærsti hlutinn hefur verið seldur til baka til hagnaðardrifinna leigufélaga. Ég vil meina að við eigum að fylgja því markmiði sem lögin segja að eigi að vera um Íbúðalánasjóð en í 1. gr. segir að hann sé fyrst og síðast til að reyna að jafna stöðu íbúa landsins, hvaða fjárhagsstöðu sem þeir hafa. Það á að reyna að auðvelda fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. Til þess er Íbúðalánasjóður.

Ég ætla að vona að hæstv. velferðarráðherra beiti sér fyrir því að svona lagað geti aldrei nokkurn tímann gerst aftur, að við skulum í rauninni vera búin að snúa tilgangi Íbúðalánasjóðs upp í andhverfu sína með því að bregðast við eins og gert var eftir hrun þegar fólk var borið út á götu og missti eignir sínar sem það hafði verið með að láni hjá Íbúðalánasjóði.