148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[12:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki persónulega tekið þátt í því samráði, en samkvæmt upplýsingum mínum hefur verið horft til athugasemda sem hafa komið frá aðilum vinnumarkaðarins og ég veit ekki betur en sú útfærsla sem hefur verið sett saman í þessu frumvarpi hafi verið kynnt fyrir aðilum vinnumarkaðarins.

Ekki er loku fyrir það skotið að koma kunni einhverjar athugasemdir þrátt fyrir það, en þessu samráði hefur, eftir mínum bestu upplýsingum, verið sinnt úr ráðuneytinu.

Varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra er það dálítil sorgarsaga hvernig við höfum talið okkur knúin til þess að ganga á það fjármagn sem sérstaklega var eyrnamerkt framkvæmdum og nýta það til rekstrar á undanförnum árum. Hér er í sjálfu sér ekki verið að leggja neinar línur varðandi framtíðina í þeim efnum, en það er bara verið að segja að fjárheimildin verði ákveðin af þinginu, hún gæti þess vegna verið hærri en sem nemur tekjum af þeim skatti sem rennur inn í Framkvæmdasjóð aldraðra hingað til.