148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[12:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Án þess að ég ætli að lengja umræðuna mikið finnst mér tilhlýðilegt að ég komi upp og lýsi áhyggjum mínum af Framkvæmdasjóði aldraðra. Hlutverk sjóðsins er, eins og kemur fram í reglugerð, býsna mikilvægt. Hann á að standa að uppbyggingu á mörgum þáttum velferðarkerfisins er snýr sérstaklega að eldar fólki, þ.e. dagþjálfun, hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum, endurbótum á húsnæði o.s.frv.

Á síðasta ári telst mér til að nefskatturinn, sem þetta er, hafi átt á skila inn í sjóðinn á bilinu 2,5–3 milljörðum í tekjur. Það er rétt sem kom fram í máli hv. fjármálaráðherra áðan að við villtumst aðeins af leið eftir hrunið í því hvernig við ráðstöfuðum tekjum sjóðsins, stór hluti tekna sjóðsins á þeim tíma fór til rekstrar og var bundinn í rekstur til allnokkurra ára, þ.e. reksturs hjúkrunarrýma.

Það kom í sjálfu sér ekki rosalega mikið að sök á þeim tíma þar sem umsóknir í sjóðinn til að mynda árin 2009–2013 vegna framkvæmda við hjúkrunarrými og hjúkrunarheimili yfirleitt voru ekki sérlega margar. Sú framkvæmdageta, vegna fjár sem sjóðurinn hafði á þeim tíma, þrátt fyrir þá fjármuni sem fóru til rekstrar, dugði ágætlega fyrir þeim framkvæmdum.

Nú eru hins vegar aðrir tímar og gera má ráð fyrir því að á næstu misserum verði umtalsverð þörf fyrir uppbyggingu í hjúkrunarrýmum, kannski ekki eins og ýtrustu spár segja til um en engu að síður töluverð þörf og þar er eins og víða annars staðar í húsnæðismálum og slíku uppsafnaður vandi.

Þess vegna hef ég nokkrar áhyggjur af því. Það þarf a.m.k. að tryggja það með einhverjum hætti við lagabreytingarnar að fjármagn til þessa mjög svo mikilvæga verkefnis verði áfram tryggt. Í því sambandi er það náttúrulega fagnaðarefni sem hv. ráðherra sagði áðan, að það gæti alveg eins verið að þangað færu meiri peningar en hefur gert hingað til.

Ég vona náttúrlega að svo sé en engu að síður geri ég ráð fyrir að þetta sé mál sem ég muni vekja máls á innan hv. efnahags- og viðskiptanefndar og vafalítið áfram í þingsal þegar málið kemur til 2. umr.