148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru gild sjónarmið sem hv. þingmaður kemur inn á. Fyrst aðeins varðandi eigendastefnuna, Landsnet er í eigu Rariks og slíkra fyrirtækja, stjórnvöld myndu setja beina eigendastefnu fyrir það fyrirtæki. Við getum hins vegar endurskoðað eignarhald eða annað á einhverju, hvort sem það er Landsnet eða þau fyrirtæki sem eiga Landsnet, eða hvernig sem það er, það er í rauninni allt önnur umræða.

Hvaða áhrif þetta plagg mun hafa á vinnu t.d. kerfisáætlunar þá er það þannig að þetta plagg hefur ákveðna stöðu að lögum og þeir sem vinna að kerfisáætlun, þeim ber að líta til þessa en auðvitað er þetta allt mjög rammað inn og það er ekki eins og menn hafi algjörlega frjálsar hendur í framkvæmdum og hraða þeirra og fjárfestingu, en samt sem áður ber þeim að líta til þessara atriða og í mínum huga er það mikil breyting frá því sem verið hefur.

Það var auðvitað rætt hvort þingið ætti beinlínis að samþykkja kerfisáætlun á sínum tíma og niðurstaðan varð að það myndi ekki samrýmast ákvæði tilskipunar sem þá var verið að innleiða, að kerfisáætlun sem slík væri háð samþykki Alþingis og sömuleiðis er Alþingi ekki eftirlitsaðili með raforkumarkaði í skilningi laganna og það væri ekki framkvæmanlegt fyrir þingið að fjalla árlega um og samþykkja kerfisáætlun um flutningskerfi raforku.

Ég er viss um að kerfisáætlun og ákvarðanir þessara aðila munu litast af því, því að þeim ber að gera það, sem Alþingi samþykkir í þessari tillögu. En þetta er auðvitað ekki eins og samgönguáætlun, það er munur þar á, ekki er verið að tímasetja áætlanir og forgangsraða þeim og segja í hvaða röð eigi að gera það og hversu mikið eftir því hvaða fjármagn við setjum í það. Þetta er auðvitað annað. En ég held samt að þetta muni hafa áhrif.