148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:47]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna eftir fremsta megni að svara spurningunni og eftir því sem ég hef þekkingu til að ræða sjónarmið hv. þingmanns, sem eru góð og gagnleg. Ég held í sjálfu sér að tekjumarkaleiðin og tvískipt gjaldskrá sé ekki tengt því hvort rafmagnsskortur sé á Norðausturlandi. Ég held að það séu einfaldlega aðrir þættir. Það þarf nefnilega líka tekjur til að hægt sé að byggja þessar línur. Það þarf líka samstöðu um að leggja þær, samkomulag við landeigendur og við aðila um það efni.

En ég held hins vegar og vil fá að hnykkja á því í andsvari við hv. þingmann að ýmislegt, bara einfaldlega á skrifborðinu, mætti gera betur, t.d. að breyta samsetningu tekjumarkamódelsins þannig að við séum að nota rafmagnið með öðrum hætti sem gæti að hluta til líka komið til móts við þau svæði sem telja sig vanta raforku. Við gætum gert það t.d. vegna þess að við höfum núna komist mjög langt í að endurbæta fjarskiptakerfið okkar og beita svokölluðu smartneti í þeim efnum sem byggir í raun á fjarskiptatækni þar sem við getum jafnað magnið eftir eftirspurn í raforkukerfinu.