148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:50]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur inn á afar áhugaverða umræðu sem mjög gott er að taka í tengslum við þingsályktunartillögu um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem eru varmadælur og varmadæluvæðing. Orðin sem hann var kannski að leita að. Stóra leyndarmálið, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti, er að ef við tækjum um það bil helming af öllu rafmagni sem er notað til húshitunar, og yfirleitt er kynt með rafmagni á svokölluðum köldum svæðum sem þingmaður nefndi, og losuðum það og byggðum varmadælur sem í eðli sínu spara orku, gætum við samkvæmt áætlun Orkustofnunar losað um 40–50 megavött. Einhver umhverfisvænsta virkjun sem hægt er að byggja á Íslandi er að ryðja fram réttum hvötum til að losa um varmadæluvæðingu og til aukinnar útbreiðslu á hitaveitum sem eru í eðli sínu með sama hætti.

Um sjávarfallavirkjanir sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) nefndi ætla ég að skila auðu.