148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:51]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst áhugavert hjá hv. þingmanni það sem hann kemur inn á varðandi dreifingu á rafmagni í landinu og í hvað hefur stefnt á undanförnum árum og áratugum, hvernig verðlagningin hefur þróast. Við tókum okkur á fyrir 20–30 árum, eða hvað það var, og ákváðum að það yrði jafn dýrt alls staðar á landinu að tala í síma. Við borgum það sama hvar sem við erum með gemsana og nú á það sama við í Evrópu. Ég hef ekki kynnt mér þetta með þeim hætti en ég skildi hv. þingmann svo að í Evrópu almennt væru menn með dreifinguna á einu verði, ekki væri mismunað á milli landsbyggðar og höfuðborgar eða strjálbýlli svæða. Er það réttur skilningur hjá mér?

Ég spyr hvort hv. þingmaður hafi skoðað hvað þetta þýðir kostnaðarlega, að jafna út, þannig að menn væru að greiða jafnt fyrir dreifinguna alls staðar með sama hætti og við gerum í fjarskiptum og slíkum þáttum.