148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki í nokkrum vafa að samþykkt þessarar þingsályktunartillögu mun færa okkur framfarir. Skárra væri það nú ef við ætluðum að búa við ríkjandi ástand og kyrrstöðu, alls ekki. Ef hv. þingmaður upplifir texta ályktunarinnar þannig að það muni ekki verða svo þá er það að sjálfsögðu þingsins að bæta úr því og leysa þar úr.

Í fyrrum meiri hluta sem við hv. þingmenn studdum báðir var ákvæðum breytt um það t.d. að velja ódýrustu línuleið hverju sinni þar sem við heimiluðum í fyrsta sinn að víkja mætti frá því að leggja alódýrustu leiðina út frá sjónarmiðum sem tengjast t.d. umhverfisvernd og lagningu jarðstrengja, sem ég heyri að hv. þingmaður er svolítið að gera að umtalsefni. Þá er svarið þetta: Já, svona aðgerðir munu til skamms tíma hækka flutningskostnað. Ég reifaði líka sjónarmið sveitarfélaga og sjónarmið landeigenda sem þurfa að sjá línurnar ryðjast yfir sín lönd, við verðum líka að fara að viðurkenna eignarréttindi þeirra. Það mun líka hækka flutningskostnað.