148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:16]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa punkta. Ég heyri að við erum í sjálfu sér alveg sammála í grunninn um margt.

Varðandi ábendingu mína um að 1. liður sé of almennur sagði ég sömuleiðis að ég vil ekkert endilega sjá hann fara út úr skjalinu. Ég held að þetta sé ekki markmið í sjálfu sér heldur er þetta bara svona. Það er kannski svolítið það sem ég var líka að reyna að segja, að í stefnuskjali þurfi einmitt að reyna að horfa til stefnumótunar eins og hún er unnin á atvinnumarkaðnum og vera með almennar skýringar fyrst og setja síðan markmið.

Þar sem hæstv. ráðherra nefnir kerfisáætlun ætla ég einmitt að koma inn á hana í síðari ræðu minni. Ég sé einmitt fyrir mér að við leggjum stóru línurnar, en svo er það auðvitað, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, kerfisáætlunar að útfæra leiðirnar til að koma vilja þingsins í framkvæmd. Þá þurfum við að vera skýrari í málflutningi þingsins, hvað við viljum og hvenær. Alla vega að gefa svona almenna hugmynd um að við viljum sjá þetta gerast fyrr en síðar.

Varðandi línulagnirnar og vandamálin í tengslum við þær er líka spurning hvort við þurfum ekki einmitt að taka upp þau mál og ég mun koma inn á það í síðari ræðu minni á eftir líka. Það er ekki eðlilegt að ekki sé hægt að leggja raflínur á Íslandi. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra sé sammála mér um það.