148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga er um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Hér var sagt í andsvari fyrr í dag, hæstv. ráðherra sagði að þetta væri ekki pólitískt mál, það hefði ekki verið pólitík í þessu máli sem tefði uppbyggingu kerfisins. Ég er algjörlega ósammála hæstv. ráðherra. Það er einmitt pólitík sem hefur tafið uppbygginguna á raforkukerfi landsins. Það er umhverfispólitíkin sem er núna komin inn í ríkisstjórnina. Hún hefur tafið þessa uppbyggingu fyrst og fremst. Það er ekki þannig að stjórnmálamenn hafi verið svo ósammála. Jú, eitthvað að sjálfsögðu, en fyrst og fremst er það sú pólitík sem hefur tafið þetta.

Þessi tillaga er um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ég er ekki á móti rafstrengjum svo ég segi það nú strax, ég er mjög hlynntur rafstrengjum þar sem þeir passa, þar sem þeir leiða ekki til meira umhverfisrasks og þar sem þeir leiða ekki til hærra raforkuverðs fyrir neytendur eða þá sem eru á hinum endanum. Þá er ég fylgjandi raforkustrengjum.

En ég spurði hv. þingmann hvort þessi tillaga myndi að einhverju leyti draga úr áhyggjum þeirra sem búa við skert raforkuöryggi núna á Suðurnesjum eða Suðurlandi. Ég skil svo sem ágætlega að hv. þingmaður geti ekki svarað því því að það er ekkert einfalt að gera það, en það er hins vegar ekkert í þessari áætlun að mínu mati sem gerir slíkt. Ef eitthvað er þá finnst mér þetta vera skref aftur á bak að því leyti til að það á að rannsaka, það á að skoða, það á að fara frá loftlínum yfir í jarðstrengi sýnist mér og eyða árum í að skoða það. Þannig skil ég þetta. Það getur vel verið að það sé misskilningur. En mér finnst þessi tillaga bera vott um það að umhverfispólitíkin er gjörsamlega komin á kaf inn í þetta mál núna á Alþingi.