148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:57]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það hefur gengið ákaflega erfiðlega um töluvert langt skeið að leggja byggðalínuna eða háspennt orkukerfi í landinu, flutningskerfi. Kæruferlið og tilfinningin í sögulegu samhengi er sú að búið sé að kæra hlutina ansi hressilega og seinka ferlinu ótrúlega. Það hefur varla verið lagður nokkur skapaður hlutur af háspennulínum eða í meginorkuflutningskerfinu í tíu ár. Gríðarleg þörf er vítt og breitt um landið, eins og hefur komið fram í umræðunni í dag. Það þarf með einhverjum hætti að skoða hvernig við getum bætt úr ferlinu til að ekki sé hægt að stoppa það aftur og aftur. Það hafa menn upplifað á Norðurlandi síðasta áratuginn. Þeir hafa verið að bugast yfir ferlinu. Þetta er það alvarlegt. Atvinnulífið er í frystingu. Það er lítið hægt að gera. Sjúkrahúsið keyrir oftar og oftar, orðið margoft, á dísilrafstöð til að tryggja öryggi skjólstæðinga sinna. Atvinnufyrirtæki í iðnaði á Akureyri eru að setja upp dísilstöðvar. Norðurorka er að setja upp stöðvar vítt og breitt um bæinn. Þetta er af þeirri stærðargráðu að menn þurfa virkilega að skoða það.

Ég held að við mættum alveg skoða betur, eins og ég sagði fyrr í dag, að setja þetta í ferli við landsskipulagið og hvernig við getum náð heildarmynd af þessu, eins og er víða gert í löndum í kringum okkur þar sem hlutirnir eru skoðaðir í víðara samhengi, litið til öryggis og annarra þátta.