148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka hv. þingmann Ara Trausta Guðmundsson í bólinu, síður en svo, ég geri það nú ekki. Þegar við ræðum uppbyggingu raforkukerfisins og hvort við eigum að virkja á hinum og þessum stöðum eða ekki fer umræðan alltaf í tvo póla. Það er þannig að ekki eru öll mannanna verk til óþurftar og meira að segja uppistöðulón geta verið falleg og verða stundum smám saman hluti af náttúrunni, eins og Elliðavatn er dæmi um sem margir gera sér í rauninni ekki grein fyrir að er uppistöðulón og er orðið hluti af náttúrunni. Þetta getur verið eftirsóknarvert fyrir okkur.

Það er annað atriði sem ég vildi heyra álit hv. þingmanns á. Fyrirætlanir eru um að koma upp vindmyllugörðum víða um land. Ég hef ekki heildstætt yfirlit yfir það en ég hef hins vegar miklar efasemdir um ágæti þess, ekki um ágæti þeirrar orku sem er verið að búa til heldur um hina sjónrænu mengun sem fylgir því. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur þekkingu á því hvaða áhrif t.d. vindmyllur hafa á fuglalíf. Það væri áhugavert að heyra af því.

Deilir hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson áhyggjum mínum þegar kemur að uppbyggingu vindmyllugarða víða um land?