148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:31]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ég fagna þessari tillögu. Hún er eitt skref í að losa þá stíflu sem verið hefur í framþróun á þessu sviði.

Þessi stefna skal höfð að leiðarljósi við gerð kerfisáætlunar. Kerfisáætlun er áætlun um uppbyggingu þess hluta raforkuflutningskerfisins sem tilheyrir Landsneti, þ.e. háspennta flutningskerfinu eða meginflutningskerfinu. Hugtakanotkun á þessu sviði getur nú vafist fyrir mörgum, held ég.

Í þessari tillögu eru sett fram almenn markmið en í kerfisáætlun skal síðan setja fram nákvæmari og tímasettari áætlun. Áætlunin hefur því mikla þýðingu fyrir heimili og atvinnulíf. Framleiðsla og dreifing raforku tengist óhjákvæmilega umhverfinu og hefur áhrif á umhverfið hvernig sem að er farið.

Í ályktuninni eru í A-hluta talin 15 grundvallaratriði sem öll skipta máli við uppbyggingu kerfisins og setja almenna grunninn. Mér sýnist að þar komi margt það sama fram sem snýr að flutningskerfinu og kom fram í sérstakri umræðu um langtímaorkustefnu í síðustu viku. Samt sem áður tel ég mikilvægt að í atvinnuveganefnd verði kafað ofan í raunverulega merkingu hvers liðar fyrir sig.

Aðgangur að raforku er jú grunnur atvinnuuppbyggingar og liður í jafnrétti til búsetu um land allt en það er því miður rétt sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan að þeim lífsgæðum sem felast í aðgangi að raforku er ekki jafnt skipt. Það þekkir sú vel sem hér stendur því ég var átta ára gömul þegar flutningskerfi raforku tengdist við mitt heimili.

Ég stoppa sérstaklega við lið 11, í A-hluta ályktunarinnar. Þar segir að við uppbyggingu skuli tryggja eins og kostur er hagkvæmt flutnings- og dreifiverð til allra raforkunotenda. Ég tel mikilvægt að endurskoða þá tvískiptingu kerfisins sem við höfum komið á eða í það minnsta velta því fyrir sér hvort ástæða og tækifæri séu til að breyta einhverju þar. Það á við um tekjumódel kerfisins en líka samstarf milli þeirra fyrirtækja sem sjá um flutningskerfið og dreifikerfið, samstarf eða samspil þeirra fyrirtækja. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Haralds Benediktssonar hér fyrr í umræðunni, um skrifborðshluta raforkukerfisins eins og hann kallaði það, og tek undir ósk hans til atvinnuveganefndar um að sá hluti verði sérstaklega skoðaður, þ.e. tekjumódelið.

Ég hef líka oft velt fyrir mér hvort þeir veggir sem við höfum byggt á milli þeirra fyrirtækja sem sjá um meginflutningskerfið og síðan dreifikerfið valdi ekki auknum kostnaði í kerfinu í heild. Þurfa Landsnet og Rarik að halda úti skrifstofu og aðstöðu sitthvorum megin við sömu götuna eða fælist hagkvæmni í því að fyrirtækin gætu unnið saman sem ein heild undir sama þaki?

Þrátt fyrir að raforkuverð til heimila í dreifbýli hafi verið jafnað á síðustu árum er ekki hægt að segja það sama um raforkuverð til fyrirtækja í dreifbýli. Þetta veldur mikilli mismunun gagnvart allri atvinnustarfsemi í dreifbýli þegar kemur að samkeppni við sambærileg fyrirtæki í þéttbýli. Sérstaklega birtist þetta í ferðaþjónustunni en auðvitað í fleiri greinum. Þetta veldur líka mörgum dreifbýlissveitarfélögum verulegum vanda þar sem reknir eru skólar, sundlaugar og félagsheimili úti um sveitir.

Auk grundvallaratriðanna sem áður eru nefnd, atriðanna 15 í A-lið, er í B-hluta mælt fyrir um að sérfróðir aðilar geri óháðar og sjálfstæðar rannsóknir á áhrifum mismunandi tæknilegra lausna við lagningu raflína. Þetta er afar brýnt og mikilvægt að þessi vinna skili niðurstöðum hratt og vel en á þessu sviði eins og annars staðar eru tæknilegar framfarir örar og því spurning hvort þessi vinna þurfi ekki að vera viðvarandi þannig að á hverjum tíma séu ákvarðanir um framkvæmdir teknar miðað við bestu fáanlega þekkingu. Því jafn mikilvægt og það er að nota bestu tækni á hverjum tíma þá getum við heldur aldrei beðið eftir því að allar tæknilausnir séu komnar fram.

Ég tek þannig undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés um mikilvægi þess að horfa bæði á stofnkostnað við jarðstrengi og heildarrekstrarkostnað á líftíma framkvæmdar. Það þekkja það allir sem fylgst hafa með þeim breytingum sem orðið hafa á lágspennta hluta dreifikerfisins þar sem það er komið í jörð hvers lags bylting það er varðandi afhendingaröryggi, sérstaklega í ísingarveðrum.

Í þessari áætlun er ekkert komið inn á dreifikerfið enda fellur það ekki hér undir en ég tel samt mikilvægt að atvinnuveganefnd ræði um uppbyggingu á dreifikerfinu fyrir þriggja fasa rafmagn í þessu samhengi. Nú eru t.d. um 70% af dreifikerfi Rarik þriggja fasa og það hefur byggst upp samhliða markvissri endurnýjun með jarðstrengjum. Nú þegar eru 57% dreifikerfisins komin í jörð og þar með eykst afhendingaröryggið í dreifbýlinu og rafmagnstruflunum fækkar en áætlunin hljóðar upp á það að endurnýjun verði ekki lokið fyrr en 2035. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hvort að það sé ásættanlegt.

Það hafa margir farið yfir hversu mikilvægt það er að ná að koma raforku á milli svæða, frá framleiðslustað og fram og aftur um kerfið og Eyjafjarðarsvæðið sérstaklega nefnt þar sem skortur á raforku hefur staðið atvinnuþróun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja fyrir þrifum. Það er auðvitað mjög brýnt að bæta úr því. Það er líka mjög mikilvægt að horfa til norðausturhornsins og hringtengingar þar, þá er ég að tala um Raufarhöfn, Þórshöfn og Vopnafjörð sem eru ein af þeim svæðum sem búa við mjög skert afhendingaröryggi.

Hér hefur verið komið inn á ýmislegt fleira sem að mikilvægt er fyrir umræðuna, m.a. landsskipulag sem er örugglega lykill að því að ná betri sátt um uppbyggingu kerfisins en líka skipulagsferlið. Ég tek undir með þeim sem hafa rætt um mikilvægi þess, ég veit ekki hvort við eigum að segja að straumlínulaga kerfið eða tryggja á einhvern hátt að kerfin vinni betur saman þar sem hægt er að gera athugasemdir við áætlanir og vinnslu áætlana á frumstigi. Ég held að það sé mjög slæmt fyrir atvinnuuppbygginguna en ekki síður fyrir málefnalega umræðu um umhverfismál að hafa þessa umræðu í þeim farvegi sem hún hefur verið síðustu ár. Hún skaðar ekkert meira en umhverfisumræðuna.