148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

almannatryggingar.

97. mál
[17:38]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, um barnalífeyri.

Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ólafur Ísleifsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Guðjón S. Brjánsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Frumvarpið er svohljóðandi:

„Á eftir 20. gr. kemur ný grein, 20. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Barnalífeyrir vegna sérstakra útgjalda.

Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.

Framlag skv. 1. mgr. verður aðeins ákveðið ef sýslumaður hefur úrskurðað um slíkt framlag samkvæmt beiðni sem honum skal send innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.

Um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög gilda sömu reglur og um úrskurði vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr. barnalaga.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð kemur fram að um 900 börn á Íslandi sem nú eru á aldrinum 0–18 ára hafa misst foreldri.

Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef foreldri er látið eða er elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi. Einnig geta einstæðir foreldrar sótt um barnalífeyri í stað meðlags ef ekki er hægt að feðra barn. Getur t.d. átt við um tæknifrjóvgun. Frá 1. janúar 2017 er barnalífeyrir 31.679 kr. á mánuði með hverju barni eða 380.148 kr. á ári.

Samkvæmt 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003, má úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar. Önnur tilefni geta einnig orðið grundvöllur slíkra framlaga en þó aðeins ef þau eru sérstaks en ekki almenns eðlis, enda er reglubundnum meðlagsgreiðslum ætlað að standa straum af almennri framfærslu barns. Dómsmálaráðuneytið gefur út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög og ber að uppfæra þær árlega miðað við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu sýslumanns frá 2018 þykja fjárhæðirnar hæfilega ákveðnar sem hér segir:

72.000–95.000 kr. vegna fermingar,

19.000–24.000 kr. vegna skírnar,

72.000–106.000 kr. vegna greftrunar.

Ekki eru gefnar út leiðbeiningar vegna annarra framlaga sem hér eru talin.

Sambærilega heimild er ekki að finna til handa barnalífeyrisþegum þar sem staðan er þó sú sama á þann veg að einn framfærandi ber hitann og þungann af öllum kostnaði sem upp kemur. Flutningsmenn telja að með þessu sé börnum einstæðra foreldra mismunað, þ.e. eftir því hvort báðir foreldrar eða annar er á lífi. Í 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að nauðsynlegt sé að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað, t.d. vegna stöðu foreldra þess. Slík mismunun fer einnig gegn hugmyndum jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár Íslands.

Flutningsmenn þessa frumvarps telja að hér sé verið að mismuna börnum sem hafa misst annað foreldri og rétt að sambærileg heimild verði fest í lög um almannatryggingar á þann veg að framfæranda barnalífeyrisþega verði heimilt að óska eftir viðbótarbarnalífeyri vegna sérstakra útgjalda. Í frumvarpinu er miðað við að sömu sjónarmið verði höfð til hliðsjónar við mat á viðbótarframlagi og stuðst er við í 60. gr. barnalaga. Beiðni um slíkt framlag skal beint til sýslumanns sem úrskurðar um hvort ríkinu beri að greiða viðbótarframlag vegna sérstakra aðstæðna.

Frú forseti. Ég er með bréf, dagsett 21. mars 2016, sem sent var til umboðsmanns barna. Efni þess er ábending um mismunun barna í lögum. Bréfið er frá samtökum sem heita Ljónshjarta. Það eru samtök fólks sem misst hafa maka sinn. Í bréfinu kemur m.a. fram að á hverju ári deyja um tvö þúsund Íslendingar og sé miðað við tölur Hagstofu Íslands fyrir árið 2014 eru um 7% þeirra á aldrinum 20–54 ára. Þannig féllu 2.049 manns frá árið 2014 og af þeim voru 145 einstaklingar á aldrinum 20–54 ára. Ekki liggja fyrir tölur um hversu mörg börn undir 18 ára aldri missa foreldra árlega, en sé miðað við meðalbarnafjölda hverrar konu um ævina, sem er 1,9 börn, eru þau 275 talsins. Eru þá ótalin þau börn og unglingar sem kveðja stjúp- eða fósturforeldra.

Samtökin Ljónshjarta benda á í bréfinu að miðað við núgildandi lög sé ótvírætt um mismunun að ræða eftir stöðu barna einstæðra foreldra, þ.e. því hvort þau eiga báða eða eitt eða hvorugt foreldra á lífi og undirstrika einmitt að slík mismunun brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands og vísað er í 65. gr. þar sem stendur að „allir skuli vera jafnir fyrir lögum“.

Samtökin vísa einnig í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 2. gr., sem áður hefur verið nefnd, en þar segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.“

Mig langar einnig, frú forseti, til að draga fram og vitna í grein sem birtist í Kjarnanum fyrir nokkru síðan, en þar er viðtal við konu, Bergþóru Heiðu Guðmundsdóttur, sem gekk í gegnum það að missa eiginmann sinn þegar hún var aðeins 39 ára gömul. Þau áttu þrjú börn saman á umönnunaraldri. Hún segist hafa komist fljótlega að því að þeirra börn stæðu ekki jafnfætis öðrum eftir áfallið. Ég ætla að leyfa mér að lesa hér nokkra kafla úr greininni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Bergþóra Heiða, eða Heiða eins og hún er gjarnan kölluð, er lögfræðingur að mennt. Hún gagnrýnir að ekki sé nægilega vel tekið tillit til aðstæðna fólks sem missir maka sína. Hún segir að lögin séu ekki sanngjörn hvað þetta varðar og bendir á að þau valdi ójafnræði milli barna sem eiga báða foreldra á lífi og þeirra sem misst hafa sína.

Hún segir að fólki bregði þegar það heyri sögu hennar og þegar hún útskýri hvernig kerfið virkar. Hún veit til þess að erindi hafi verið send til alþingismanna og að reynt hafi verið að vekja athygli á þessum málum.

„Fólk í minni stöðu er aftur á móti ekki með baráttuandann,“ segir Heiða. Ekki sé auðvelt að berjast fyrir réttindum þegar aðstæður eru svo erfiðar og sorgin mikil. […]

Samkvæmt lögunum er ekki hægt að fá aukameðlag frá ríkinu ef þungt er í ári og enginn greiðir á móti einstæðu foreldri fyrir allt sem til fellur. Heiða tekur sérstaklega fram að hún sé að hugsa um börn foreldra sem eru látin sérstaklega. Það séu þau sem þetta kemur langverst niður á.

Þegar Heiða missti manninn sinn voru þau að koma yfir sig þaki og byggja sig upp fjárhagslega en þau dvöldu erlendis á þessum tíma. Þau áttu, eins og fram hefur komið, þrjú börn á umönnunaraldri sem gerði róðurinn erfiðan fyrir Heiðu. Hún segir að þrátt fyrir að hennar saga sé að sumu leyti frábrugðin þar sem hún bjó ekki á Íslandi þegar hún varð ekkja þá hafi hún samt sem áður byrjað að leita réttar síns fljótt eftir áfallið.

Hún komst að því að ríkið verður meðlagsgreiðandi við fráfall maka en slíkar greiðslur kallast barnalífeyrir.“ — Eins og áður er nefnt. — „Ekki sé aftur á móti hægt að fá tvöfaldan barnalífeyri í tilfelli ekkna eða ekkla og enn fremur komi ríkið ekki til móts við fólk í sérstökum tilfellum þar sem fjárútláta er þörf.“

Enn fremur segir í grein Kjarnans:

„Heiða segir að erfitt geti reynst að fjármagna einsömul tannréttingar, fermingar, bílpróf og þess háttar útgjöld en ólíkt einstæðum foreldrum þá getur hún ekki sótt um sérstök framlög þegar það á við. Henni finnst að með þessu sé verið að mismuna börnum og að Tryggingastofnun túlki lögin þannig að þau eigi ekki rétt á frekari framlögum. Henni finnst mikið jafnréttismál að allir skulu vera jafnir fyrir lögum en þegar börn ekkna eða ekkja eiga í hlut þá sé það ekki raunin.

Þannig sé verið að mismuna börnunum og hegna þeim fyrir aðstæður þeirra. Foreldri í þessum aðstæðum geri iðulega sitt besta en fái mjög takmarkaða hjálp frá ríkinu. Aðeins þeir heppnu með gott bakland og há laun geti staðið undir þessum mikla kostnaði sem fylgir því að sjá fyrir börnum.

Heiða veit um dæmi þess að fólk, sem misst hefur maka sína, hafi orðið veikt og þurft að treysta á örorku í framhaldinu og að peningaáhyggjur hafi reynst erfiðar eftir sorg og missi. […]

Af þessum ástæðum segist Heiða vilja segja sína sögu; að ekki sé komið nægilega á móts við fólk í þessum aðstæðum og að misræmi sé milli réttinda barna. „Þetta gengur ekki, sum börn líða skort út af þessu lagalega misræmi,“ segir hún.

Hún bendir á að í 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að öll börn skuli njóta réttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.“

Að lokum, frú forseti:

„„Það vantar vitundarvakningu. Er ekki nóg að þessi börn hafi misst svo óskaplega mikið og þurfi síðan í ofanálag að takast á við þennan ójöfnuð?“ spyr Heiða. Áhrif foreldramissis eru augljóslega gríðarlega mikil og telur hún að samfélaginu beri að hjálpa þeim sem lenda í slæmum aðstæðum, að ríkinu beri að styðja við fólk sem á um sárt að binda og ekki síst börn þeirra.“

Að þessu sögðu vonast ég til, eða ég geri ráð fyrir, frú forseti, að málið gangi til hv. velferðarnefndar. Ég vonast til að nefndin hafi tök á því að afgreiða málið fljótt og örugglega. Það lítur a.m.k. út fyrir það eins og ég sé þetta að þarna sé einfaldlega ákveðið gat á núverandi lagaumgjörð, þ.e. þarna sé misræmi annars vegar á milli laga um meðlag og hins vegar laga um barnalífeyri. Það gæti mögulega komið í ljós við skoðun nefndarinnar að meira þurfi að gera til að laga þetta misræmi en hér er lagt til. Ég vona að málið fái góðan framgang í hv. velferðarnefnd og náist að afgreiða það á þessu þingi.