148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sálfræðiþjónusta í opinberum háskólum.

112. mál
[18:10]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er algjörlega íhugunarvert. Hins vegar eru nemendurnir í skólanum og ég hugsa að það séu þá kennarar eða samnemendur sem fyrstir verða varir við ef eitthvað er að. Við erum með heilbrigðisþjónustu í skólum. Við erum með hjúkrunarfræðinga o.fl. Málið fer til velferðarnefndar til skoðunar. Ég held að þetta þurfi að vera hluti af skólakerfinu, en auðvitað eru sálfræðingar heilbrigðisstétt, þeir eru ekki kennarar, en þjónusta af slíku tagi þarf að vera í skólakerfinu a.m.k. til að byrja með, sálfræðingar þurfa að vera staddir í skólanum að mínu mati og eiga held ég alltaf að vera. Síðan geta nemendur leitað út fyrir skólana eftir þjónustu.

Ég held að tillögunni sé alveg réttilega beint að hæstv. menntamálaráðherra. Þótt ég skilji það og það sé auðvitað eitthvað sem má velta fyrir sér sé ég ekki að efni tillögunnar eigi ekki vel við velferðarnefnd, því að það þarf að gera þetta í samvinnu við skólana. Sú þjónusta sem veitt er t.d. í Háskólanum í Reykjavík er veitt á vettvangi skólans sjálfs en ekki undir hatti heilbrigðisráðuneytisins.