148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[18:30]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir framsöguna og fyrir að leggja frumvarpið fram. Þetta er hið þarfasta mál.

Sjálfur starfaði ég lengi við fjölmiðla og mun ætíð styðja allt sem bætir starfsumhverfi þeirra og tryggir betur frelsi þeirra og þeirra blaðamanna sem þar starfa. Í Blaðamannafélaginu var nú oft verið að ræða um siðareglur og hversu ítarlegar þær ættu að vera. Sjálfur hef ég stundum verið á þeirri skoðun að eina siðareglan sem þurfi að vera sé: Hafa skal það sem sannara reynist, vitnað í Ara fróða.

Ég hjó eftir að hv. þingmaður vísaði í skýrslu um Mannréttindadómstólinn, ég held að ég fari með rétt mál, þar sem rætt var um málefni sem ættu erindi við almenning, það hefði komið í ljós að eitthvað ætti erindi við almenning. Þetta hugtak hefur þvælst fyrir mörgum. Sumum finnst óeðlilegt að dómarar geti í raun ákveðið hvort eitthvað eigi erindi við almenning eða ekki, þá sé ritstjórnarvald fjölmiðils í raun komið inn á valdsvið dómara.

Af því að ég var svo sammála því sem hv. þingmaður sagði í sinni ræðu þá langaði mig að eiga örlítinn orðastað við hana um þetta og spyrja hvort það sé í raun þörf á að víkka þetta út enn frekar eða hvort það sé aldrei hægt, hvort dómstólar þurfi alltaf að eiga síðasta orðið.