148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega andsvarið og deili með hv. þingmanni áhuga á fjölmiðlaumhverfinu. Ég hef aldrei starfað nokkurs staðar lengur en einmitt á fjölmiðli, þannig að þetta stendur manni nærri.

Þetta er mjög áhugaverð spurning og líklegast sú sem er á gráasta svæðinu, þ.e. hvaða umfjöllun á erindi við almenning. Það má síðan snúa þessu við í raun og veru vegna þess að það hvað fjölmiðlar mega og hvað þeir mega ekki hlýtur að vera grunnurinn að umræðunni. Ef það er ekki dómstóla að taka afstöðu til þess, hver gerir það þá? Ég er ekki að segja að þetta sé auðvelt, en við þurfum kannski í þessu stóra umhverfi og þetta verður ekki einfaldara með — ég ætla nú ekki að gera hv. þingmanni það að hafa starfað fyrir tíma internetsins, en það gerði sú sem hér stendur, en þetta verður ekki einfaldara eða auðveldara með tímanum. Það er kannski eitt af þessum stóru málum.

Ég get a.m.k. sagt að ég tel mun vænlegra til árangurs að fá aðila á borð við Mannréttindadómstólinn til þess að koma með okkur í þetta og fylgja því sem þeir eru að vinna með á sínum risamarkaði og með mun stærri og flóknari mál en við á okkar markaði. Ég held að þetta sé eitt af því sem ég myndi hvetja hæstv. dómsmálaráðherra til að skoða þegar hann fer vonandi í þessa endurskoðun. Þetta er eitt af stóru málunum sem þarf að taka tillit til og skoða.