148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að hnykkja á þessu með hvað eigi erindi til almennings yfir höfuð, sem er lykilspurningin í þessu, þá held ég að það megi nálgast það þannig að allt eigi erindi og svo þrengir maður það, frekar en að nálgast þetta út frá því að fjölmiðlar þurfi að berjast fyrir því í hverju skrefi að eitthvað eigi erindi. Ég held að það sé mun heillavænlegra fyrir lýðræðislega umræðu og samfélagið.

Varðandi það hvort ég hafi kynnt mér þróunina ætla ég ekki að taka svo djúpt í árinni að segja að ég hafi gert það nákvæmlega. En eitt veit ég; þróunin þar hefur orðið töluvert hraðari en hjá íslenskum dómstólum. Þar liggur grundvöllur þessarar tillögu. Ég er ekki með þetta betur niðurnjörvað en svo.