148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[18:47]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi. forseti Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, bann við umskurði drengja. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, Inga Sæland, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Jón Þór Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til, með leyfi forseta:

„1. málsl. 218. gr. a orðast svo: Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“

Í 2. gr. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Herra forseti. Öldum saman, eða í um 5000 ár, hefur sá siður tíðkast víða að umskera barnunga drengi, framan af með almennu samfélagslegu samþykki og skilningi á helgisiðum tiltekinna trúfélaga, gyðinga og múslima aðallega. Á 19. öld jókst tíðni umskurða verulega þegar almennt var hvatt til þess að drengir væru umskornir til að koma í veg fyrir ýmsa kvilla og hegðun. Umskurðir á sveinbörnum tíðkast þó ekki eingöngu innan gyðingdóms og hjá trúfélögum múslima. Þeir eru t.d. nokkuð algengir í kristnum ríkjum í Afríku og í Bandaríkjunum. Þannig að fylgni á milli trúarbragða og umskurðar er alls ekki algild heldur er einnig um samfélagslega venju eða hefð að ræða.

Í þessu samhengi má einnig geta þess að sú sem hér stendur hefur fengið fjölda bréfa og skilaboða eftir að það frumvarp sem nú er rætt varð að opinberu þingskjali. Flest skilaboð hef ég fengið frá ísraelskum gyðingum sem styðja frumvarpið og tjá mér að innan þeirra samfélags sé ört vaxandi hreyfing sem vilji afleggja þann sið að limlesta unga drengi í nafni trúarinnar. Sum bréfin eru frá foreldrum sem sjá eftir því að hafa umskorið drengina sína, önnur frá foreldrum sem segjast ekki hafa látið umskera syni sína og sum bréfin eru frá eldri karlmönnum, sem voru umskornir þegar þeir voru drengir. Þeir segja mér að þeir hefðu ekki látið umskera sig, hefðu þeir fengið að velja. Aðgerðin hefur valdið mörgum þeirra sársauka og ýmsum líkamlegum vandkvæðum alla ævi, sem er auðvitað hræðilegt.

Af þessu má draga þá ályktun að hefð fyrir umskurði er ekki bundin við einstök trúfélög og innan trúfélaga þar sem umskurður tíðkast er ekki eining um að honum skuli haldið áfram.

Hæstv. forseti. Rök fyrir umskurði eru sem sagt stundum þau að um sé að ræða trúarlega athöfn og hins vegar séu læknisfræðilegar ástæður fyrir aðgerðinni. Í greinargerð frá Barnaheillum er m.a. farið yfir helstu rök þeirra sem segja læknisfræðilega kosti umskurða vera fleiri en galla. Rökin með umskurði eru m.a. þau að umskurður geti komið í veg fyrir þvagfærasýkingar í nýburum, komið í veg fyrir krabbamein í typpi, komið í veg fyrir kynsjúkdómasmit og komið í veg fyrir alnæmissmit.

Andsvör og rök þeirra sem vilja afnema framkvæmd umskurða á drengjum eru eftirfarandi:

1. Þvagfærasýkingar eiga sér stað í 1/100 tilfella og þær er auðveldlega hægt að meðhöndla með sýklalyfjum. Í 2/100 tilfellum verða erfiðleikar í kjölfar umskurðar, því er ekki hægt að réttlæta umskurð með því að hann sé forvörn gegn þvagfærasýkingu.

2. Rannsóknir þær sem hafa sýnt fram á vörn gegn krabbameini, kynsjúkdómum og HIV-smiti eru afar gagnrýndar, þær hafa flestar verið framkvæmdar í Afríku sunnan Sahara, sagðar byggðar á veikum grunni og ótengdar læknisfræðilegum forsendum á Vesturlöndum.

3. Umskurður á ungum drengjum geti ekki verið réttlættur með vísan í að hann komi í veg fyrir tiltekna sjúkdóma sem einungis koma til sögunnar með kynlífi. Einungis væri hægt að réttlæta umskurð ef hann væri framkvæmdur á unglingum eða ungum fullorðnum með fullu og upplýstu samþykki þeirra.

Læknar á Vesturlöndum hafa tekið sig saman og ritað lærðar greinar um að afnema eigi umskurði á drengjum í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum og telja framkvæmd slíkra aðgerða stríða gegn siðareglum lækna. Skilaboð þeirra eru þau að umskurð eigi ekki að framkvæma nema hann eigi sér læknisfræðilegar ástæður. Vil ég þá sérstaklega nefna vel þekkta grein úr læknablaðinu Pediatrics Today sem birt var árið 2013 og 38 læknar frá 16 löndum skrifuðu saman.

Umskurður er óafturkræf aðgerð og veldur bæði sársauka og sýkingarhættu. Þó að aðgerðin sé í sjálfu sér lítil á læknisfræðilegan mælikvarða fela öll slík inngrip í sér einhverja áhættu. Samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum látast á annað hundrað sveinbörn í kjölfar umskurðar á ári þegar þeim blæðir út. Þá eru undirliggjandi blæðingasjúkdómar sem ekki er vitað um áður en börn eru umskorin.

Það að eitt barn látist vegna ónauðsynlegrar aðgerðar, er einu barni of mikið.

En hvað felur slík aðgerð í sér? Hvernig fer umskurður fram og hvenær er hann gerður? Umskurður fer þannig fram að fremsti hluti forhúðar getnaðarlims er fjarlægður með skurðaðgerð. Meðal gyðinga er algengast að drengir séu umskornir á áttunda degi lífs. Á meðal múslima er hins vegar algengast að drengir séu umskornir í kringum tíu ára aldurinn. Ég heyri það frá Bandaríkjunum að algengt er að ungir drengir séu hreinlega umskornir á fæðingardeildinni, sem sagt fljótlega eftir fæðingu. Ýmislegt við framkvæmd umskurðar er umdeilt og má nefna eftirfarandi:

1. Aðgerðin er framkvæmd án deyfingar eða með lítilli deyfingu og sársauki því mikill, börnin fá áfall, sýna einkenni áfallastreituröskunar. Ekki er notast við svæfingar. Börn ýmist gráta ákaflega eða sýna engin viðbrögð. Viðbragðsleysi barna hefur verið útskýrt með því að börn séu ekki farin að skynja sársauka svo ung. Rannsóknir hafa leitt í ljós að viðbragðsleysið er áfallsviðbragð, eins konar stjarfi.

2. Víða er umskurður framkvæmdur annars staðar en á skurðstofum, svo sem í heimahúsum sem ekki eru dauðhreinsuð og ekki af læknum heldur trúarleiðtogum. — Þá á ég ekki við að þetta sé gert endilega í heimahúsum hér á landi, ég veit ekki til þess. En þetta er í greinargerð frá Barnaheillum. — Mikil hætta er á sýkingum við slíkar aðstæður sem geta leitt til dauða.

3. Umskurður á ungum börnum brýtur gegn rétti barna til að segja skoðun sína á málefnum sem þau varða.

Virðulegi forseti. Snúum okkur að mannréttindahlið málsins, en ástæða þess að ég legg málið fram er að ég tel að við sem löggjafi eigum að gæta þess að verja börnin okkar í hvívetna fyrir hverju því sem stríðir gegn barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindum almennt. Hugmyndin að frumvarpinu er sprottin af frétt á heimasíðu umboðsmanns barna en þann 30. september 2013 skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn undir yfirlýsingu gegn umskurði ungra drengja.

Mig langar að lesa fréttina af heimasíðu umboðsmanns barna eða hluta hennar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í gær, 30. september 2013, skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn undir yfirlýsingu gegn umskurði ungra drengja.

Umskurður á ungum drengjum felur í sér brot á réttindum þeirra, nema slík aðgerð sé talin nauðsynlegt af heilsufarslegum ástæðum. Umskurður felur í sér varanlegt inngrip í líkama barns sem getur haft í för með sér mikinn sársauka, auk þess sem slíkri aðgerð fylgir hætta á sýkingum og öðrum vandamálum.

Umskurður á ungum drengjum samræmist illa 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um rétt barna til þess að hafa áhrif á eigið líf. Auk þess telst umskurður brot gegn 3. mgr. 24. gr. sáttmálans sem tryggir börnum vernd gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur einnig hvatt öll ríki til þess að banna aðgerðir sem stefna mannlegri reisn barna í hættu og eru ekki í samræmi við réttindi barna. Þó að það sé vissulega réttur foreldra að veita barni sínu leiðsögn þegar kemur að trúarbrögðum, getur slíkur réttur aldrei gengið framar rétti barnsins.“ — Þetta er grundvallaratriði hér. — „Má í því sambandi benda á að samkvæmt 3. gr. barnasáttmálans á það sem er barni fyrir bestu að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða barn. Á réttur barna og mannhelgi þeirra því að ganga framar rétti fullorðinna til að taka trúarlegar og menningarlegar ákvarðanir fyrir hönd barna sinna.

Í yfirlýsingunni kemur fram að umboðsmenn barna og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn á Norðurlöndum telja brýnt að vinna að því að banna umskurð á ungum drengjum. Mikilvægt er að virða sjálfsákvörðunarrétt barna og banna umskurð á drengjum nema í þeim tilvikum sem drengur, sem náð hefur nægilegum aldri og þroska til að skilja hvað felst í aðgerðinni, veitir samþykki sitt. Vonast er til þess að umrædd yfirlýsing verði til þess að málefnaleg umræða eigi sér stað milli allra þeirra sem málið varðar.

Að lokum eru ríkisstjórnir á öllum Norðurlöndum hvattar til þess að stuðla að fræðslu um réttindi barna og þá áhættu sem fylgir umskurði. Enn fremur eru þær hvattar þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að drengir fái sjálfir að ákveða hvort þeir vilji láta umskera sig þegar þeir hafa aldur og þroska til.“

Herra forseti. Ég ætla líka að halda áfram að vísa í greinargerð frá Barnaheillum en þar kemur mikið af áhugaverðum upplýsingum fram. Þar segir m.a. með leyfi forseta:

„Mannréttindasáttmálar kveða á um að allir eigi rétt til lífs, frelsis og öryggis og að enginn eigi að þurfa að þola vanvirðandi meðferð. Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að við allar ákvarðanir og ráðstafanir sem varða líf barna skuli byggt á því sem barni er fyrir bestu. Og í 76. gr. stjórnarskrár Íslands segir: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Í 3. mgr. 24. gr. barnasáttmálans segir að aðildarríki skuli gera allar þær ráðstafanir sem vænlegar séu til árangurs og við eiga í því skyni að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna. Umskurð í trúarlegum tilgangi má vafalaust heimfæra undir þetta ákvæði þótt ekki sé enn að finna stoð fyrir því í gögnum barnaréttarnefndarinnar sem annast eftirfylgni með sáttmálanum. Enn fremur má nefna að umskurður á ungum drengjum samræmist illa 12. gr. barnasáttmálans sem kveður á um að börn eigi rétt á að láta skoðun sína í ljós í öllum málum sem þau varða og tekið skuli réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Það myndi samræmast betur ákvæðinu ef beðið yrði með ákvörðun um umskurð þar til barnið hefði náð þeim aldri að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort það vildi láta framkvæma á sér umskurð.

Evrópuráðið gaf út skýrslu í september 2013 um ýmsar hefðir tengdar snemmbærum inngripum í líf barna, þar sem ríki voru hvött til að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi barna og setja um það reglur hvar og hvernig umskurður væri heimill, þ.e. einungis framkvæmdur af læknum á viðeigandi stofnunum, svo sem sjúkrahúsum eða á heilsugæslustöðvum í sótthreinsuðu umhverfi.

Barnaheill hvetja stjórnvöld til að láta kanna algengi umskurða á sveinbörnum á Íslandi og jafnframt kanna við hvaða aðstæður umskurðir eru framkvæmdir.“

Herra forseti. Á 145. löggjafarþingi lagði hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, en hún er einnig meðflutningsmaður þessa frumvarps, fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um umskurði á börnum. Hún spurði m.a. að því hvort fyrir lægju upplýsingar um umskurð á börnum hér á landi og ef svo væri, hversu margar slíkar aðgerðir hefðu verið gerðar undanfarinn áratug. Þingmaðurinn óskaði jafnframt eftir að aldur barna og kyn yrði tilgreint í svarinu og hvort aðgerðirnar hefðu verið framkvæmdar af heilsufarsástæðum eða trúar- eða félagslegum ástæðum. Í svari ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Embætti landlæknis safnar ekki reglubundið upplýsingum um umskurð á börnum hér á landi. Um er að ræða einstök tilvik en umskurður á kynfærum stúlkna er óheimill samkvæmt ákvæði 218. gr. a. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Samkvæmt sömu lögum telst umskurður á kynfærum stúlkna til líkamsárásar. Embætti landlæknis hefur aflað eftirfarandi upplýsinga: Á Barnaspítala Hringsins hefur ein aðgerð verið framkvæmd á dreng af læknisfræðilegum ástæðum á sl. þremur árum. Á spítalanum eru slíkar aðgerðir eingöngu gerðar í læknisfræðilegum tilgangi. Tveir sjálfstætt starfandi barnaskurðlæknar eru á landinu og hefur engin aðgerð verið framkvæmd hjá þeim á sl. tveimur árum. Þegar leitað var í gagnagrunnum embættisins fyrir árin 2009–2014 kom í ljós að ein aðgerð var framkvæmd árið 2009 og ein árið 2012.“

Í nýlegu svari landlæknis, sem birt var í grein um málið í Morgunblaðinu í sl. viku, kemur fram að aðgerðir hafa verið 15 á frá tímabilinu 2006–2016 — ég vona að ég fari rétt með síðara ártalið — en sú sem hér stendur hefur óskað eftir nýjum tölum og frekari upplýsingum frá embættinu. Þannig að sú tala sem kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur virðist ekki standast. Það er a.m.k. misræmi þar sem þarf að skoða betur.

Ég hef fengið þau svör frá landlækni að skráningar á aðgerðum séu með þeim hætti að þær hafi ákveðið númer samkvæmt tegund aðgerðar. Einnig kemur fram af hvaða orsökum slíkar aðgerðir eru gerðar ef um læknisfræðilegar orsakir er að ræða. Eftir því sem ég kemst næst er ekki skráð sérstaklega ef aðgerð er af trúarlegum ástæðum.

Herra forseti. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir lagði einnig fram þá spurningu til heilbrigðisráðherra á 145. löggjafarþingi hver stefna stjórnvalda væri varðandi það hvort umskurður barna vegna trúarlegra eða samfélagslegra ástæðna skyldi leyfður eða bannaður og hvort kæmi til greina að setja um slíkt reglur á borð við „Vejledning om omskæring af drenge“ sem í gildi eru í Danmörku. Í svari ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland á að vera fjölskylduvænt land þar sem börn búa við öryggi og jöfn tækifæri og njóta lögvarinna réttinda líkt og aðrir þjóðfélagsþegnar. Heilbrigðisráðherra telur mikilvægt að skurðaðgerðir sem framkvæmdar eru á líkama barna séu framkvæmdar af heilbrigðisstarfsmönnum sem heyra undir lög nr. 34/2012 og þannig sé tryggt að haft sé eftirlit með gæðum og öryggi við framkvæmd þeirra aðgerða, samanber ákvæði laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, þar sem fjallað er um eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Ráðuneytið telur því vel koma til greina að settar verði sambærilegar leiðbeiningar og gert hefur verið Danmörku og mun hafa samráð við embætti landlæknis í því skyni.“

Og það er einmitt verkefni þingsins nú að skoða hvort nauðsynlegt sé að banna umskurð á drengjum með lögum eða einungis að setja sérstakar reglur um umskurð á drengjum. Sumir hafa bent á í umræðunni sem skapast hefur um málið í fjölmiðlum síðustu daga að engin nauðsyn sé að setja slík lög þar sem svo fáar aðgerðir eru gerðar á drengjum í þessu skyni. Að mínu mati vega slík rök ekki þungt. Þar vil ég vísa til þess að á 131. löggjafarþingi árið 2005 voru samþykkt lög um bann við umskurð á konum og stúlkum. Ástæða þeirrar lagasetningar var ekki sú að umskurður á stúlkum væri orðið vandamál á Íslandi, fjöldinn væri slíkur, heldur var um mannréttindamál að ræða. Hvers vegna eigum við að leyfa limlestingar á kynfærum drengja á meðan þær eru bannaðar með lögum á konum og stúlkubörnum?

Íslensk stjórnvöld hafa stutt þá umræðu og vinnu sem farið hefur fram á alþjóðavettvangi, svo sem á vegum Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og varðar aðgerðir til að koma í veg fyrir limlestingu á kynfærum. Ísland var til að mynda eitt þeirra ríkja sem lögðu fram ályktun sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2012 og kallar eftir efldu alþjóðlegu átaki til að útrýma limlestingum á kynfærum kvenna. Ætlum við nokkuð að skilja drengina eftir í þeirri baráttu? Ég vona ekki.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að útrýma kynbundnu ofbeldi og vernda börnin sérstaklega. Í ljósi þess bind ég því vonir við að við Íslendingar verðum fyrsta ríkið í heiminum sem bannar limlestingar á kynfærum drengja.

Hæstv. forseti. Umrætt frumvarp felur í sér að núgildandi lögum frá 2005 um bann við limlestingum á kynfærum kvenna og stúlkna verði breytt á þann hátt að í stað orðsins stúlka komi orðið „barn“.

Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 83/2005, koma fram margar mjög mikilvægar upplýsingar og forsaga þess máls rakin mjög ítarlega. Orðanotkun í heiti málsins var breytt úr „umskurði“ í „limlestingar á kynfærum kvenna“ í samræmi við hugtakanotkun Sameinuðu þjóðanna, „female genital mutilation“ eða FGM, en sú orðanotkun er talin lýsa verknaðinum betur.

Aðdragandi lagasetningar árið 2005 var sá að á 127. löggjafarþingi var lögð fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um hvort ráðherrann teldi tímabært að lögfesta bann við umskurði stúlkna og setja viðurlög við slíkum verknaði. Í svari ráðherrans, sem finna má í greinargerðinni, kom fram að umskurður á stúlkum teldist vera líkamlegt ofbeldi en ekki læknisverk og því væri læknum óheimilt að framkvæma hann samkvæmt læknalögum. Í svari ráðherra stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Samkvæmt refsilöggjöfinni ætti umskurður stúlkna því að falla undir líkamsmeiðingarákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 218. gr., sbr. síðari breytingar, og vera skilgreindur sem brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrár, barnaverndarlögum, nr. 80/2002, sbr. 98. og 99. gr., og lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.“

Einnig benti heilbrigðisráðherra á að verknaðurinn stríddi gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, mannréttindasáttmála Evrópu og samningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá 1992.

Í svari ráðherra kom fram að í fortakslausu banni við umskurði stúlkna fælist ákveðin yfirlýsing og teldi hann ekkert því til fyrirstöðu að skoða hvort slíkt bann ætti að leiða í lög. Slíkt bann væri raunar í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur var á Íslandi 1992, en þar er kveðið á um að aðildarríki skuli gera allar þær ráðstafanir sem vænlegar eru til árangurs og við eiga í því skyni að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna og enn fremur að aðildarríki skuli gæta þess að ekkert barn sé látið sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Í greinargerð frumvarpsins frá 2005 segir einnig, með leyfi forseta:

„Eitt af því sem mælir með því að lög af þessu tagi verði lögfest á Íslandi er sú staðreynd að enn hefur ekki komið í ljós að verknaður af þessu tagi hafi verið unninn hér“ — takið eftir þessu, hefur enn ekki verið unninn hér — „og það gefur okkur tækifæri til að fyrirbyggja slíkan verknað áður en skaðinn er skeður. Það væri jafnvel erfiðara að fást við lagasetningu sem þessa eftir að einhver dæmi um verknaðinn hefðu komið upp. Eftir því sem lög sem banna limlestingu á kynfærum kvenna verða algengari verður erfiðara fyrir þjóðir að viðhalda þessari fornu hefð sem veldur tjóni á lífi, líkama, andlegri heilsu og líðan stúlkubarna og kvenna.

Það er skylda Íslendinga í samfélagi þjóðanna að leggja sitt af mörkum til að þessi forna hefð verði aflögð og komið verði í veg fyrir limlestingu fjölda stúlkubarna. Verði frumvarpið að lögum er það fyrirbyggjandi aðgerð og skýr yfirlýsing um stuðning Íslendinga við baráttuna gegn þessum hroðalegu misþyrmingum og mannréttindabrotum á börnum og konum í heiminum.“

Herra forseti. Ofantalin rök með því að festa í lög bann við limlestingum á kynfærum stúlkna og kvenna eiga að sjálfsögðu jafn vel við, þá og nú og eiga einnig við sem rök fyrir banni á limlestingum á kynfærum drengja.

Í frumvarpi þessu er lagt til að bannað verði að umskera unga drengi með breytingu á 218. gr. a almennra hegningarlaga nema slík aðgerð sé talin nauðsynleg af heilsufarslegum ástæðum. Það er skoðun flutningsmanna að umskurður á ungum drengjum feli í sér brot á réttindum þeirra nema slík aðgerð sé talin nauðsynleg af heilsufarslegum ástæðum. Umskurður felur í sér varanlegt inngrip í líkama barns sem getur haft í för með sér sársauka, auk þess sem slíkri aðgerð fylgir hætta á sýkingum og öðrum vandamálum síðar á lífsleiðinni.

Það er mat flutningsmanna að drengir sem vilja láta umskera sig af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum taki ákvörðun um slíkt þegar þeir hafa sjálfir náð aldri og þroska til þess að skilja hvað felst í slíkri aðgerð, þar sem aðgerðin er óafturkræf.

Flutningsmenn vilja undirstrika og leggja þunga áherslu að umskurður á ungum drengjum samræmist illa 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um rétt barna til þess að hafa áhrif á eigið líf. Auk þess telst umskurður brot gegn 3. mgr. 24. gr. sáttmálans sem tryggir börnum vernd gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur einnig hvatt öll ríki til þess að banna aðgerðir sem stefna mannlegri reisn barna í hættu og eru ekki í samræmi við réttindi barna. Þó að það sé vissulega réttur foreldra að veita barni sínu leiðsögn þegar kemur að trúarbrögðum getur slíkur réttur aldrei gengið framar rétti barnsins. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 3. gr. barnasáttmálans á það sem er barni fyrir bestu að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða barn. Á réttur barna og mannhelgi þeirra því að ganga framar rétti fullorðinna til að taka trúarlegar og menningarlegar ákvarðanir fyrir hönd barna sinna.

Í því samhengi er mikilvægt að líta til almennrar athugasemdar frá barnaverndarnefndinni í Genf. Þar er m.a. fjallað um samspil 3. og 19. gr. barnasáttmálans. Fram kemur að það sem er barninu fyrir bestu verði að túlka heildstætt með öllum greinum sáttmálans, þar með talinni 19. gr., og vernda börn gegn hvers kyns ofbeldi. Ekki er hægt að beita 3. gr. sáttmálans í þeim tilgangi að réttlæta venjur sem hafa verið við lýði, eins og líkamlega, grimmúðlega eða niðurlægjandi refsingu sem fer gegn mannlegri reisn og líkamlegum heilindum. Enn fremur er tekið fram í athugasemdinni að mat fullorðins einstaklings á því hvað sé barni fyrir bestu geti ekki komið í stað raunverulegra skuldbindinga um virðingu fyrir réttindum barna samkvæmt barnasáttmálanum.

Að þessu sögðu, herra forseti, þá tel ég einsýnt að íslensk stjórnvöld eigi að banna með lögum umskurð á kynfærum drengja þar sem það brýtur á mannréttindum þeirra og trúfrelsi.