148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[19:11]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið.

Þingmaðurinn hefur kynnt sér og fengið upplýsingar frá upplýsingaþjónustu Alþingis um stöðuna annars staðar í heiminum, sérstaklega á Norðurlöndum, varðandi þetta mál. Enn sem komið er er ekkert ríki sem bannar umskurð á drengjum. Ef við myndum samþykkja slík lög yrðum við fyrsta landið í heiminum til þess, sem ég teldi til algerrar fyrirmyndar.

Umræðan annars staðar á Norðurlöndunum er vissulega mikil. Ég hef fengið gríðarleg viðbrögð frá fólki, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, frá heilbrigðisstarfsmönnum á Norðurlöndunum, Íslendingum sem starfa þar bæði við hjúkrun og lækningar. Ég hef einnig séð að umfjöllun hefur verið umtalsverð í norrænum dagblöðum um að þetta sé til umræðu hér á Alþingi.

Staðan í Danmörku er sú að lögin eru þannig að almenningur getur lagt fram þingsályktunartillögu fyrir þingið ef tiltekinn fjöldi fæst. Miðað er við 50 þúsund manns. Samkvæmt mínum upplýsingum eru 12 þúsund einstaklingar komnir sem meðmælendur að slíku frumvarpi. Í danska þinginu er verið að kanna hvort frumvarpið væri þingtækt, í ljósi þess hvort það stríddi gegn lögum um trúfrelsi. Þetta er því komið áleiðis í Danmörku.

Ég nefndi líka í máli mínu áðan að nú eru í gildi sérstakar reglur í Danmörku varðandi þessar aðgerðir. Þetta er spurning um lagasetningu hjá þeim.